Húsagötur sópaðar og þvegnar

Samgöngur Umhverfi

""

Hreinsun á húsagötum hófst nú í vikunni en stefnt er að því að ljúka sópun og þvotti á húsagötum í byrjun júní. Byrjað er með forsópun og nokkrum dögum síðar verður sópað og þvegið.

Björn Ingvarsson sem stýrir þjónustumiðstöð borgarlandsins segir að þegar komi að þvotti húsagatna reyni á að íbúar sýni lipurð og vinni með borginni og færi bíla sína úr almennum bílastæðum við götuna.  Íbúar verða látnir vita með dreifibréfi og skiltum.

Fjölförnustu leiðirnar voru hreinsaðar fyrst

Byrjað var að sópa götur og stíga fyrir mánuði síðan með áherslu á fjölförnustu leiðirnar sem eru stofnbrautir, stofnstígar milli hverfa og aðrir helstu stígar. Frá því vorhreinsun hófst fyrir mánuði síðan hafa frostakaflar sett strik í reikninginn.  Þegar hiti fellur niður fyrir 2 gráður er ekki hægt að nota sugur götusópanna því barkar þeirra stíflast við þær aðstæður. Þrátt fyrir að nokkrir dagar hafi af þessum sökum fallið út er verktaki engu að síður vongóður um að vorhreinsun í heild verði lokið á tilsettum tíma sem er eins og áður segir í byrjun júní.

Á vef Reykjavíkurborgar má sjá uppfærða verkáætlun. Breytilegt er frá ári til árs í hvar hreinsun húsagatna hefst og hvar henni lýkur.