Hlaðborð af nýrri tækni í kennslu

Skóli og frístund

""

Boðið var upp á öðru vísi hlaðborð í Langholtsskóla 16. október þegar  kynnt var það allra helsta sem er að gerast í skapandi notkun snjalltækja í starfi með börnum og ungmennum. 

Listteymi skóla- og frístundasviðs og Mixtúra stóðu að þessum viðburði með aðkomu valinkunnra fagmanna úr ýmsum áttum. Boðið var upp á stöðvar með snjalltækjum, kynningu og sýnikennslu og sóttu hátt í 70 listgreinakennarar og menningartenglar starfsstöðvanna sér þekkingu og fróðleik. 

Um var að ræða annars vegar stuttar kynningar og hins vegar tækifæri til að prófa sig áfram með einföld tæki, s.s. forrituð smátæki. Kynntar voru aðferðir við myndvinnslu, sýndarveruleika, hljóðvinnslu og sköpun, þrívíddarhönnun, og upptökuvinnu.  Meðal forrita sem kynnt voru má nefna Puppet pals og Book Creator til sögugerðar, Stop motion í hreyfimyndagerð, Garageband og Roli í tónlistarsköpun og Schulpturis í þrívíddarhönnun. 

Tilgangurinn var að gefa menningartengiliðum og öðrum áhugasömum tækifæri til að fá yfirsýn yfir þá möguleika sem eru í boði þegar tæknin er annars vegar sem þeir geta ýmist nýtt sér sjálfir eða miðlað til starfsfélaga sinna.