Hjólakraftur, samgöngusamningar og skjól fyrir hjólreiðafólk

Stjórnsýsla Umhverfi

""
Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar, afhenti samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar við hátíðlega athöfn í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag.
Viðurkenningu fyrir framlag sitt til eflingar vistvænna samgöngumáta fengu Advania, Bike Cave og Hjólakraftur.
Advania fékk viðurkenningu fyrir samgöngusamninga, en 45% starfsmanna fyrirtækisins nýta sér þá;  Bike Cave hlaut samgönguviðurkenningu fyrir fjölþætta þjónustu við hjólreiðafólk og Hjólakraftur var heiðraður fyrir framlag sitt í að hvetja krakka til að prófa hjólreiðar bæði sem íþrótt og sem samgöngumáta.

Nær helmingur starfsmanna Advania með samgöngusamning

Hjá Advania eru 45% starfsmanna með samgöngusamning og hefur þeim fjölgað verulega frá síðasta ári eða úr 35%.  Stór hluti hjólar en einnig eru fjölmargir sem nota almenningssamgöngur eða ganga til og frá vinnu. Advania á 15 þjónustubíla sem allir starfsmenn hafa aðgang að á vinnutíma. Fyrirtækið er með stóra, upphitaða og læsta reiðhjólageymsla sem starfsmenn hafa aðgang að hvenær sem er.
 

Við aðsetur Advania í Borgartúni eru bílastæði viðskiptavina næst húsinu, en starfsmenn á bíl leggja í 400 metra fjarlægð. Strætóstöðin er hins vegar í aðeins 100  metra fjarlægð.  Almenningssamgöngur eru þannig í forgangi.

Advania er með ítarlega samgöngustefnu og hefur fyrirtækið látið útbúa fræðsluskjalið „Þú getur sparað“ þar sem borinn er saman kostnaður ólíkra samgöngumáta t.d. rekstur einkabíls, leigubílakostnaður, kostnaður við almenningssamgöngur og kostnaður við reiðhjól.

Skjól og þjónusta fyrir hjólreiðafólk

Bike Cave er veitingastaður og verslun en býður einnig upp á fjölþætta þjónustu svo sem verkstæðisaðstöðu fyrir hjól, sturtuaðstöðu, vespuleigu o.fl. Hjólreiðastaðurinn Bike Cave í Skerjafirði og eigendur hans Hjördís og Stefán hafa gert margt til að styðja þá sem ferðast á reiðhjóli frá vesturhluta borgarinnar til þess eystri, og öfugt.  Öll umferð hjólandi sem fer suður fyrir flugvallarsvæðið á leið framhjá staðnum þeirra og öllum er vel tekið.

Um staðinn segir í einni tilnefningunni: „Ekki aðeins mikils virði á köldum og blautum dögum, sem mikilvægt stopp þar sem lítið er um aðra möguleika á skjóli gegn veðri og vindum, heldur er þar líka búið að koma upp góðri aðstöðu til að kippa í lag smávægilegum bilunum sem kunna að gerast á leiðinni.“
Staðurinn er opinn frá morgni og langt fram á kvöld allan ársins hring og er því oft valinn sem endastöð á skipulögðum ferðum hjólahópa um borgina.
Eigendurnir, Stefán og Hjördís hafa lagt orku, tíma og jákvæða viðleitni í að styðja vistvæna umferð í borginni, gefa góð ráð og aðstoða sem er mikilvægt fyrir þá sem eru að byrja að tileinka sér samgönguhjólreiðar.

Hvatning til krakka að prófa hjólreiðar sem íþrótt og ferðamáta

Hjólakraftur er verkefni sem Þorvaldur Daníelsson hefur leitt. Hann hefur hvatt krakka til að prófa hjólreiðar bæði sem íþrótt og sem samgöngumáta. Fyrsti hópurinn byrjaði í Reykjavík og núna eru hópar á nokkrum stöðum á landinu. Hóparnir hittast  tvisvar í viku og stundum þrisvar. Árið 2014 tók hópur á vegum Hjólakrafts í fyrsta sinn þátt í Wow cyclothon og hafa síðan tekið þátt á hverju ári með góðum árangri.

Öflugir aðilar fengu tilnefningu

Samgönguviðurkenningin er byggð á tilnefningum og umsóknum frá fyrirtækjum, félagasamtökum og stofnunum sem stigið hafa mikilvæg skref í starfsemi sinni í átt til vistvænni samgöngumáta. Dómnefndin byggði val sitt á aðgerðum og verkefnum sem m.a. draga úr umferð bíla og einfalda notkun virka ferðamáta, s.s. að hjóla og ganga. Í dómnefndinni sátu Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi, Gígja Gunnarsdóttir, Embætti landlæknis, Hrönn Guðmundsdóttir, ÍSÍ, Rannveig Magnúsdóttir, verkefnastjóri hjá Landvernd, Þorsteinn Rúnar Hermannsson samgöngustjóri Reykjavíkurborgar og Hrönn Hrafnsdóttir, verkefnisstjóri grænna skrefa í starfsemi Reykjavíkurborgar.

Í hópi þeirra sem hlutu tilnefningu eða sendu inn umsókn að þessu sinni voru fjölmargir öflugir aðilar:
  • ALTA,
  • Arion banki,
  • Arnar Helgi Lárusson,
  • Icelandair,
  • Icelandair Hótel,
  • Íslandsbanki,
  • Landspítalinn,
  • OR og dótturfélög,
  • Umhverfisstofnun og
  • Verkís.

Samgönguviðurkenningar síðustu ára hafa fallið eftirtöldum í skaut:
  • 2015 ÁTVR og Eva Ólafsdóttir
  • 2014 Sesselja Traustadóttir, Landspítalinn og Fjármálaeftirlitið
  • 2013 Landsbankinn og Hugsmiðjan
  • 2012 Mannvit, Alta og Landsamtök hjólreiðamanna