Hækkun á styrk svifryks við umferðargötur

Heilbrigðiseftirlit Umhverfi

""

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum í borginni og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til.

Styrkur svifryks (PM10) er í dag, 27. mars, hár við helstu umferðargötur skv. mælingum í fastri mælistöð við Grensásveg. Sem stendur  er hægur vindur ríkjandi og götur þurrar, ryk þyrlast því auðveldlega upp. Klukkan 13:00 var hálftímagildi svifryks við mælistöðina á Grensásvegi 77.84 míkrógrömm á rúmmetra en sólarhringsheilsuverndarmörkin eru 50 míkrógrömm á rúmmetra. Haldist veður óbreytt er hætta á að svifryk fari yfir þau mörk.

Einnig var styrkur svifryks hár í morgun í færanlegri mælistöð sem staðsett er við Eiríksgötu en þar er töluverð umferð stórra farartækja s.s. hópferðabíla.

Líkur eru á að svifryksmengun verði áfram mikil næstu daga þar sem spáð er hægum vindi og lítilli sem engri úrkomu.

Bent skal á að svifryksmengun er mest í nágrenni við miklar umferðargötur en minni mengun er inni í íbúðarhverfum fjær umferð. Búast má við toppum í svifryksmengun á umferðarálagstímum á morgnanna, í hádeginu og í eftirmiðdaginn.

Hægt er að fylgjast með styrk svifryks á www.reykjavik.is/loftgaedi en þar má sjá kort yfir mælistaði í Reykjavík m.a. mælistöð á Grensásvegi.