Gleðilegan Fjölmenningardag 11. maí!

Mannréttindi

""

Fjölmenningardagur Reykjavíkurborgar verður haldinn hátíðlegur þann 11. maí næstkomandi og er markmiðið með hátíðahöldunum að fagna fjölbreyttri menningu borgarsamfélagsins. Hátíðin er nú haldin í fimmta sinn og má með sanni segja að hún hafi öðlast sess í hugum borgarbúa enda setur hún skemmtilegan blæ á borgarlífið.

Fjölbreytt skemmtidagskrá verður í boði þann dag sem hefst með setningarathöfn kl. 13.00 við Hallgrímskirkju. Að því loknu fer Fjölmenningarskrúðganga af stað áleiðis í Ráðhús Reykjavíkur. Fjöldi  fólks hefur ár hvert tekið þátt í göngunni og ræður litagleðin ríkjum og þátttakendur klæðast fallegum þjóðbúningum hinna ýmsu landa. Þegar í Ráðhúsið kemur hefst fjölþjóðlegur markaður í Tjarnarsal þar sem gestir og gangandi geta kynnt sér menningu ýmissa þjóðlanda og á boðstólum verða þjóðlegir réttir, listmunir og annar varningur.
 
Í Tjarnarbíói verður boðið upp á fjölbreytt skemmtiatriði, Lalla töframann, Festejo dans frá Perú, litháískan kórsöng, Capoeira afró brasilísk bardagalist og Mamandi trommuhóp frá Gíneu.  Að lokinni skemmtidagskrá verður ljóðaupplestur á ýmsum tungumálum og að því loknu stuttmyndasýning nemenda í Kvikmyndaskóla Íslands.
 
Um kvöldið klukkan 20.00 verða svo tónleikar í Hafnarhúsinu þar sem fram kemur hljómsveitin The Bangoura Band ásamt listamönnum frá Ghana.
 
Það ættu allir að geta fundið sér atriði við hæfi!
Gleðilegan Fjölmenningardag!
 
Smelltu hér til að sjá dagskrá fjölmenningardagsins.
 
Nánari upplýsingar veitir Jóna á mannréttindaskrifstofu - jvk@reykjavik.is