Gleðilega Menningarnótt

Mannlíf Menning og listir

""
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri setti Menningarnótt í blíðskaparveðri í Grjótaþorpi klukkan 12:30 í dag. Framundan er skemmtileg dagskrá þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Gestir eru hvattir til þess að skilja bílinn eftir heima, taka strætó, koma fótgangandi eða á hjóli. Góða skemmtun.
Borgarstjóri hóf daginn á því að ræsa 10 kílómetra hlaupið í Lækjargötu í morgun. Gríðarlegur fjöldi tók þátt í hlaupinu að þessu sinni og hlupu til styrktar góðu málefni.  Menningarnótt var sett í Grjótaþorpi með pompi og prakt. Listamaðurinn Sverrir Guðjónsson sagði frá innsetningu sinni Grjótaþorpið - Hjarta Reykjavíkur sem hann hefur gert í tilefni af 230 ára afmæli borgarinnar í ár. Að lokinni setningu hófst svo fjölbreytt dagskrá með hátt í 300 ókeypis viðburðum um alla miðborg.
 
Grandasvæðið er áherslusvæði Menningarnætur í ár en þar hefur menningar- og mannlíf blómstrað síðustu ár. Í boði verður fjöldi áhugaverðra og óvæntra viðburða og áhersla lögð á að fólk komist vel leiðar sinnar. Ísafjarðarbær sem fagnar 150 ára afmæli í ár, er gestasveitarfélag Reykjavíkurborgar á Menningarnótt. Ísfirðingar eru með viðburði í Ráðhúsi Reykjavíkur af því tilefni auk þess sem lokaatriði Tónaflóðs Rásar 2 er tileinkað Ísafirði.  

Menningarnótt markar  upphaf menningarársins 2016-2017 í Reykjavík. Þá ljúka lista- og menningarstofnanir, hátíðir, listmenn, listhópar og fjölmargir aðrir upp dyrum sínum og bjóða upp á dagskrá sem endurspeglar starfsemi þeirra og það sem er framundan á árinu.
 
Á Menningarnótt er sérstök áhersla lögð á að fjölskyldan njóti samveru, komi saman í bæinn og fari heim saman. Það ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi, en mikið úrval verður af fjölbreyttum viðburðum fyrir börn og fullorðna.
 
Ókeypis verður í Strætó sem keyrir samkvæmt hefðbundinni leiðartöflu fram til kl. 22.30. Þá tekur við sérstök leiðartafla sem miðar að því að koma fólki hratt og örugglega heim úr miðborginni. Hægt er að finna nánari upplýsingar um leiðarkerfi þeirra vagna Strætó sem aka í miðborgina á  vef Strætó.
 
Finna má dagskrána á heimasíðu www.menningarnott.is