Gert við Tjarnarkantinn

Betri hverfi Umhverfi

""

Verktakar á vegum Reykjavíkurborgar hafa hafið viðgerðir á Tjarnarkantinum vestanmegin sem liggur að Tjarnargötu. Gert var við eystri kant Tjarnarinnar fyrir tveimur árum en það verkefni var kosið af íbúum Miðborgarinnar í íbúakosningum árið 2012.

Í framkvæmdunum nú verður kanturinn endurhlaðinn á 90 metra kafla en hann var orðinn illa farinn og farið að losna um hellulögn á aðliggjandi gangstígum. Þá verður aðstaða fyrir fugla bætt og gróðri plantað á viðeigandi stöðum.

Eftir að framkvæmdum lýkur mun umhverfi Tjarnarinnar verða eins og best verður á kosið fyrir fólk og fiðurfé en ýmislegt hefur verið gert í og við Tjörnina á undanförnum árum til að bæta lífríki hennar sem og aðstöðu til útivistar. Varpaðstaða fyrir endur, kríur og vaðfugla hefur verið stórbætt í fuglafriðlandinu í Vatnsmýri og síkjamara hefur verið plantað í Tjörnina en slíkur gróður bætir m.a. lífsskilyrði andarunganna á Tjörninni.