Garðeigendur hvattir til að huga að trjágróðri

Umhverfi Framkvæmdir

""

Víðast er trjágróður til prýði og ánægju, en þegar hann hefur vaxið út fyrir lóðarmörk getur hann skapað óþægindi og hindrað för vegfarenda. 

 

Reykjavíkurborg hvetur garðeigendur til að bregðast við og klippa tré sín svo þau hvorki hindri vegfarendur, hylji umferðarskilti né dragi úr götulýsingu.

Nokkur atriði þurfa að vera í lagi:

  • Umferðarmerki verða að vera sýnileg.
  • Gróður má ekki byrgja götulýsingu.
  • Gangandi og hjólandi eigi greiða leið um gangstíga.
  • Þar sem vélsópar og snjóruðningstæki fara um má lágmarkshæð gróðurs yfir stígum ekki vera lægri en 2,8 metrar.
  • Þá þarf lágmarkshæð þar sem sorphirðubílar þurfa að komast eftir stétt eða stíg að vera minnst 4,2 metrar.

Þeir sem vilja koma ábendingum á framfæri geta sett hana inn á ábendingavef - OPNA ÁBENDINGAVEF, haft samband í síma 411 11 11 eða sent tölvupóst á netfangið upplysingar@reykjavik.is.

Trjágróðri sé haldið innan lóðarmarka

Byggingarreglugerð setur garðeigendum þá skyldu á herðar að halda gróðri innan lóðarmarka. Í reglugerðinni nr. 112/2012 gr. 7.2.2  segir: „Lóðarhafa er skylt að halda vexti trjáa eða runna á lóðinni innan lóðarmarka. Sinni hann því ekki og þar sem vöxtur trjáa eða runna fer út fyrir lóðarmörk við götu, gangstíga eða opin svæði er veghaldara eða umráðamanni svæðis heimilt að fjarlægja þann hluta er truflun eða óprýði veldur, á kostnað lóðarhafa að undangenginni aðvörun“. 

 

Nánari upplýsingar á þjónustusíðu: Trjágróður út fyrir lóðarmörk.