Fyrstu friðarfulltrúar Höfða Friðarseturs

Mannlíf Mannréttindi

""

Það var mikið um dýrðir í Höfða í morgun þegar fyrstu Friðarfulltrúar Höfða Friðarseturs voru útskrifaðir með pomp og pragt. Friðarfulltrúarnir eru 23 og hafa lokið vikulöngu námskeiði þar sem þeir lærðu um mannréttindi og friðsamleg samskipti á milli fólks. Krakkarnir bjuggu einnig til listaverk sem tengjast friði.

Börnin koma úr Fella- og Hólabrekkuskólum í Breiðholti og eru af mörgum þjóðernum. Verkefnið var unnið á vegum Höfða Friðarseturs, Háskóla Íslands Rauða Kross Íslands og skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Til stendur að halda áfram með það og bjóða fleirum að taka þátt. Það hefur m.a. þann tilgang að brjóta niður múra á milli innflytjenda og íslenskra barna, efla tvítyngi og víðsýni auk þess sem börnin fá fræðslu um heilbrigð samskipti og helstu mannréttindi.

Krakkarnir unnu m.a. listverkefni og unnu með bókina Flugan sem stöðvaði stríðið eftir Bryndísi Björgvinsdóttur og Þórarinn Má Baldursson en hún fjallar um húsflugur sem koma ýmsu góðu til leiðar.

Við útskriftina í Höfða færðu börnin Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands bréf með hugmyndum sem eiginkona forsetans Eliza Reid tók á móti, en borgarstjórinn í Reykjavík Dagur B. Eggertsson, og Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands fengu einnig bréf með ýmsum góðum hugmyndum. Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar, tók á móti Friðarfulltrúunum í Höfða.