Fyrirtæki í Reykjavík flokka og skila

Umhverfi

""

Fyrirtækjum í Reykjavík er nú skylt að flokka og skila til endurvinnslu og endurnýtingar. Þetta kemur til framkvæmda frá og með mánudaginum 13. febrúar.

Reykvískum heimilum hefur verið gert að flokka ákveðna úrgangsflokka frá blönduðum úrgangi og skila í endurvinnslu og aðra móttöku. Nú hefur Reykjavíkurborg samþykkt að fyrirtækjum sé einnig skylt að flokka og skila eins og heimili gera.

Þessar breytingar voru innleiddar í gegnum endurskoðaða Samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Reykjavík sem borgarstjórn samþykkti í desember.

Fyrirtæki henda pappír í meira mæli en heimili

Greiningar SORPU benda til að hlutfall pappírs í blönduðum úrgangi sé meira frá fyrirtækjum en heimilum. En 110 þúsund tonn voru urðuð í Álfsnesi árið 2016. Þarf af voru 60% frá fyrirtækjum eða 66 þúsund tonn.

Þó hefur hlutur pappírs í gráu tunnunni undir blandaðan úrgang aukist lítið eitt frá því það var lægst árið 2014 eða 8% en er nú 13%. Eftir að íbúum var gert skylt að flokka pappír frá öðrum úrgangi jókst endurvinnsla pappírs stórlega eða úr 32% í gráu tunninni í einungis 8% á skömmum tíma. Vonir standa til að það sama gerist hjá fyrirtækjum.

Mörg fyrirtæki standa sig nú þegar afar vel og eru með umhverfisstefnu og skila nær engu til urðunar og endurvinna nánast allt sem til fellur.

Reykjavíkurborg hefur sett sér metnaðarfull markmið um flokkun og skil til endurvinnslu í Aðgerðaáætlun um meðhöndlun úrgangs og í Aðalskipulagi.  Svo þetta geti orðið að veruleika þurfa allir að taka þátt, bæði íbúar og fyrirtæki.

Heimilisúrgangur dróst saman 2016

Heildarmagn úrgangs í heimilistunnum hefur minnkað úr 179 í 173 kg á íbúa að jafnaði. 

Magn blandaðs úrgangs í tunnum við heimili minnkaði um 809 tonn eða 4,4 % milli árana 2015 og 2016. Magn plasts sem skilað er í grænar tunnur jókst verulega eða um 142 tonn eða um 99,3% milli ára. Magn pappírsúrgangs skilað í bláar tunnur stóð nánast í stað á milli ára. Samanlagt dróst blandaður úrgangur, plast og pappír saman um 697 tonn eða 3,4%.

Aftur á móti hafa  skil á grenndar- og endurvinnslustöðvum aukist á milli ára eða um 15% að jafnaði en þó misjafnlega eftir úrgangsflokkum. Til dæmis hafa skil á plasti aukist um 120% á milli ára 2015-2016.

„Við tökum eftir miklum áhuga hjá íbúum og fyrirtækjum á að auka endurvinnslu en þó má gera enn betur og þessi breyting er liður í því,“ segir Eygerður Margrétardóttir deildarstjóri umhverfis- og úrgangsstjórnunar hjá Reykjavíkurborg og að fyrirtækjum standi til boða þjónusta við hirðu og meðhöndlun endurvinnsluefna hjá einkaaðilum, auk þess sem endurvinnslustöðvar eru fyrir hendi. 

Tenglar
Samþykkt um meðhöndlun úrgangs

Aðgerðaáætlun um meðhöndlun úrgangs í Reykjavík