Frístundakort Reykjavíkur hækkar í 50.000 krónur um áramótin

Íþróttir og útivist Mannlíf

""

Frístundakort Reykjavíkurborgar sem verið hefur 35.000 krónur hækkar í 50.000 krónur nú um áramótin og er það hækkun upp á 42,8 prósent. Í samstarfssamningi sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Ingvar Sverrisson, formaður ÍBR undirrituðu í dag kemur fram að hækkunin tekur gildi þann 1. janúar 2017.

Frístundakortið er styrkjakerfi í frístundastarfi fyrir 6 - 18 ára börn og unglinga með lögheimili í Reykjavík. Hægt er að nýta sér styrkinn fyrir íþrótta-, lista og tómstundastarf. Í samstarfssamningi sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Ingvar Sverrisson, formaður ÍBR undirrituðu í dag kemur fram að hækkunin tekur gildi þann 1. janúar 2017.  Nýting frístundakortsins er mjög góð, og nýta  liðlega 80 prósent ungmenna í Reykjavík sér styrkinn til tómstundaiðkunar.

Nýting á Frístundakorti öll börn í Reykjavík

Í samningnum kemur fram að íþróttafélögin muni leita allra leiða til að vinna gegn því að efnahagsleg staða barna og fjölskyldna þeirra ráði því hvort börn og ungmenni geti tekið þátt í skipulögðu íþróttastarfi.  Meðal annars verður skoðað hvort veita megi systkinaafslætti til barnmargra fjölskyldna. Þá er í skoðun að  setja upp skiptimarkaði á fatnaði og búnaði sem börn eru hætt að nota, auk annarra leiða að þessu markmiði.  ÍBR og ÍTR munu vinna í samvinnu við félögin að gerð tillagna í þessu verkefni.

Í samningnum er enn fremur lagður grunnur að stuðningi Reykjavíkurborgar við íþróttafélögin í borginni en árlegur heildarstyrkur til íþróttastarfs í borginni er 2,2 milljarðar.  Þar af fá íþróttafélögin um 820 milljónir vegna eigin rekstrar, húsaleigu og vegna íþróttafulltrúa hverfafélaganna.
Á samingstímanum munu Reykjavíkurborg og ÍBR taka til nánari skoðunar og umræðu ýmis málefni sem tengjast málaflokknum s.s. þjálfarakostnað, launakostnað og rekstarstyrki félaga sem reka eigin mannvirki auk afreksíþróttastefnu og íþróttastarfs fyrir aldraða.