Fótfrátt fiðurfé í Borgartúni

Heilbrigðiseftirlit Umhverfi

""

Nauðsynlegt er að þeir sem halda hænur í þéttbýli gæti þess að þær fari ekki á flakk.

Að gefnu tilefni vill Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur minna á þær reglur sem gilda um hænsnahald í Reykjavík og raktar eru í samþykkt um hænsnahald í Reykjavík nr. 815/2014. Nauðsynlegt er að þeir sem halda hænur í þéttbýli gæti þess að þær fari ekki á flakk eins og raun bar vitni í gærmorgun. Starfsmenn borgarinnar rákust á nokkrar fótfráar hænur á vappi skammt frá Höfðatorgi, mögulega á leið í þjónustuver Reykjavíkurborgar að Borgartúni 12-14 eða í Hamborgarafabrikkuna í ætisleit.

Hænsnahald í Reykjavík er leyfilegt utan skipulagðra landbúnaðarsvæða en sækja þarf um leyfi heilbrigðisnefndar og er það háð ýmsum skilyrðum, m.a. því að lausaganga hæna er með öllu óheimil. Með umsókn skal fylgja skriflegt samþykki nágranna sem eiga aðliggjandi lóðir. Ef um fjöleignarhús er að ræða skal að auki liggja fyrir samþykki sameigenda, sbr. lög nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Sé umsækjandi leigjandi skal fylgja samþykki leigusala. Með umsókn skal fylgja aðstöðumynd sem sýnir staðsetningu hænsnakofa og gerðis á lóð.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur útbúið leiðbeiningar um förgun úrgangs og annað sem tengist hænsnahaldi í Reykjavík. Leyfin eru gefin út til 4 ára í senn.