Comeníusar - verkefni Dvergasteins fær viðurkenningu

Samstarfsverkefni, sem sameinaði leikskólinn Drafnarborg og Dvergasteinn taka þátt í, fékk fyrstu verðlaun í samkeppni sem helguð er degi umhverfisins í Belgíu. Viðurkenningin hefur mikla þýðingu fyrir verkefnið. Það gengur undir nafninu Puppets with a green mission og er samstarfsverkefni níu skóla í jafn mörgum löndum; Íslandi, Belgíu, Litháen, Hollandi, Portugal, Spáni, Slóveníu, Tyrklandi og Rúmeníu.
Sjá heimasíðu verkefnisins: www.puppetswithamission.eu.

Drafnarborg/Dvergasteinn er móðurskóli þessa verkefnis og Linda Björg Birgisdóttir, yfirverkefnastjóri þess.

Úrslit samkeppninnar voru tilkynnt í dag á  heimasíðunni ProjektEarth og þar er einnig gert grein fyrir verkefninu sem miðar að því að efla umhverfisvitund ungra barna og miðla kennsluefni í umhverfismennt. Sérhver samstarfsskóli hefur útbúið brúðu sem er fulltrúi skólans, landsins, tungumálsins og þjóðmenningar. Hver brúða á tösku með dagbók og vegabréfi og þær ferðast á milli landa og læra hver af annarri. Þá hefur í þessu samstarfi verið þróuð ýmis verkefni fyrir leikskólabörn sem fara á milli landa þar sem m.a. eru gerðar tilraunir, skipst á söngvum og viðfangsefnum sem ná til endurvinnslu, vatnsnýtingar, orkunotkunar, holls matar og grænna samgangna.

Viðurkenningin vekur athygli á verkefninu með ýmsu móti og fjallað verður um það í fjölmiðlum í Belgíu í dag ásamt því að grein verður birt í fréttabréfi Project Earth. Síðast en ekki síst verður greint frá því á ráðstefnu um sjálfbæra þróun í Ríó de Janeiro í Brasilíu, sem nefnist RIO+20 United Nations Conference on Sustainable Development.