Breiðholtsbrúin – gefandi félagsstarf fyrir alla

Mannréttindi Velferð

""

Breiðholtsbrúin sem er samstarfsverkefni Fjölskyldumiðstöðvar í Gerðubergi, Hjálparstarfs kirkjunnar og Pepp Ísland auk Fella- og Hólakirkju hefur nú verið flutt í Breiðholtskirkju þar sem næsta opna hús fer fram mánudaginn 8. maí kl. 11:30-14:00. Opið hús hefur verið haldið fimm sinnum í Fella- og Hólakirkju frá því í febrúar við ágætar undirtektir og nú stendur til að efla mætingu enn frekar.

Breiðholtsbrúin er frjálst félagsstarf sem er í grunninn opið hús þar sem allir eru velkomnir - óháð aldri, stöðu, þjóðerni,  og öllum mögulegum breytum sem hægt er að tína til. Breiðholtsbrúin er m.a. kjörið tækifæri fyrir fólk sem hefur upplifað félagslega einangrun og vill byggja sig upp með því að hitta gott, hresst og skemmtilegt fólk á sínum eigin forsendum.

Eitt megininntakið í opnum húsum Breiðholtsbrúarinnar er eldamennska og sameiginlegt borðhald í framhaldinu. Fólk er því ekki einungis að kynnast hvort öðru heldur einnig matarmenningu ólíkra hópa frá mismunandi löndum og heimshornum. Skipuleggjendur vonast til að sjá sem flesta gesti í nýrri staðsetningu mánudaginn 8. maí kl. 11:30 - enda eru allir velkomnir á Breiðholtsbrúna.