Borgarstjóri á One Planet Summit í París

Stjórnsýsla Umhverfi

""

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri situr nú loftslagsráðstefnuna One Planet Summit í París.

Forseti Frakklands Emmanuel Macron boðaði til ráðstefnunnar sem er haldin tveimur árum eftir að Parísarsamkomulaginu var náð. Tilgangur ráðstefnunnar er að sammælast um hvernig markmiðum Parísarsamkomulagsins skuli náð, meðal annars með því að miðla upplýsingum um árangursríkar aðferðir ríkja, landsvæða og borga til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Anne Hidalgo borgarstjóri Parísar var meðal þeirra sem tóku til máls ásamt borgarstjórum Seoul, Buenos Aires og Quito. John Kerry fyrrverandi utanríkisráðherra Bandarikjanna hlaut lófaklapp fyrir innlegg sitt um loftslagsbreytingar. Mikill fjöldi þjóðarleiðtoga eru staddir a fundinum ásamt borgarstjórum og ríkisstjórum.

Dagur segir fundinn afar mikilvægan og áberandi hvað borgir heims eru að leggja áherslu á sömu hluti: “Hjá okkur eru stóru verkefnin samgöngumálin, breyttar ferðavenjur, orkuskipti, borgarlína og auknar almenningssamgöngur ásamt því að gera eins og langflestar aðrar borgir eru gera - reyna að fá fleiri til að ganga og hjóla.”

Síðar í dag mun Macron taka til máls ásamt Guterres aðalritara Sameinuðu þjóðanna og Jim Yong Kim forseta Alþjóðabankans.

172 lönd hafa samþykkt Parísarsamkomulagið og öll þeirra vinna miðar nú að því að útfæra nákvæmar áætlanir um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

ONE PLANET SUMMIT