Borgarstjórar bregðast við loftslagsvandanum

Stjórnsýsla Umhverfi

""

Borgarstjórar og æðstu embættismenn yfir 100 evrópskra borga hittust í Brussel í síðustu viku til að ræða aðgerðir í loftslagsmálum. Sigurður Björn Blöndal, formaður borgarráðs, sat fundinn fyrir hönd Reykjavíkurborgar.

Evrópusambandið og Connie Hedegaard, framkvæmdastjóri loftslagsmála sambandsins, höfðu frumkvæði að því í mars á þessu ári að stofna samtökin Mayors Adapt – the Covenant of Mayors Initiative on Adaptation to Climate Change (Borgarstjórar bregðast við – samkomulag borgarstjóra um að bregðast við loftslagsbreytingum) 

Þann 16. október sl. þakkaði Connie Hedegaard framkvæmdastjóri loftslagsmála Evrópusambandsins frumkvæðið sem Reykjavík og aðrar borgir víðsvegar um Evrópu hafa sýnt í baráttunni gegn áhrifum loftslagsbreytinga. Á ráðstefnunni var undirritað samkomulag samtakanna en yfir 100 evrópskar borgir hafa nú tekið höndum saman um að berjast sameiginlega gegn loftslagsbreytingum og deila því sem best er gert í hverri borg.

Sem þátttakandi í samtökunum hefur Reykjavíkurborg undirgengist að sýna frumkvæði í því að bregðast við áhrifum loftslagsbreytinga. Framlag Reykjavíkur verður staðbundið aðgerðaplan sem deilt verður með hinum borgunum sem taka þátt í átaki Evrópusambandsins gegn loftlagsbreytingum.

„Loftslagsbreytingar eru að eiga sér stað. Við verðum að bregðast við. Best er bregðast gegn vandanum með öðrum borgum í svipaðri stöðu. Það að ganga til liðs við samtökin mun því hafa margvíslegan ávinning í för með sér fyrir Reykjavík, þar sem borgirnar deila með sér því sem best er gert í hverri borg og vinna saman gegn vandanum,“ segir Sigurður Björn Blöndal, formaður borgarráðs en hann skrifaði undir samkomulagið fyrir hönd Reykjavíkurborgar.

Connie Hedegaard, framkvæmdastjóri loftslagsnefndar Evrópubandalagsins sagði: „Þegar við settum átakið af stað í mars var ætlunin að fá að minnsta kosti 50 borgir til liðs við það fyrir lok ársins. Nú þegar hafa 100 borgir skrifað undir og fleiri vilja ganga í þau. Borgirnar okkar eru að byggja sig upp í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og það eru góðar fréttir fyrir íbúana og fyrirtæki. Góður undirbúningur er mun ódýrari heldur en hreinsunaraðgerðir eftir á þegar skaðinn er skeður. Slíkur undirbúningur getur bjargað mannslífum.“

Undirskriftarathöfnin í Brussel var haldin til að fulltrúar borganna gætu hist og skerpt á áherslum til aðgerða. Þarna var því skapaður vettvangur til að skiptast á hugmyndum og því sem best er gert til að taka á vandanum.


Æðstu ráðamenn borga ræða loftlagsmálin

Um morguninn ræddu æðstu ráðamenn borganna hvað hefði verið gert í þeirra borgum og það var sett í samhengi við alþjóðlega samvinnu í loftslagsmálum. Á morgunfundinum var m.a. sýnt myndband frá Michael Bloomberg, fyrrum borgarstjóra New York, sem nú starfar sem sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna í loftslagsmálum borga. Þar var fjallað um það sem er að gerast í loftslagsmálum í heiminum. Christiane Figueres, aðalritari UNFCCC fjallaði einnig um sama mál. Rætt var um loftslagsmál á alþjóðavísu í samhengi við ástandið í Evrópu og mikilvæg sjónarmið evrópskra borga voru viðruð. Þar höfðu framsögu, Jose Sá Fernandes, staðgengill borgarstjóra Lissabon, Portúgal, Jakob Hougaard, staðgengill borgarstjóra, tækni- og umhverfisráðs Kaupmannahafnar og Josef Schmid, staðgengill borgarstjóra Munchen í Þýskalandi.

„Við lítum svo á að viðbrögð við loftslagsbreytingum séu aðalatriði í því að skipuleggja fyrir framtíðina. Við höfum í nokkur ár tekist á við þessar breytingar. Mayors Adapt átakið er frábært tækifæri fyrir okkur til að bregðast beint við vandanum. Nothæf aðstoð, góð ráð frá samstarfsaðilum og tækifæri til að leggja til það sama í sameiginlegt markmið Evrópubandalagsins, í gegnum aðgerðir sveitarfélaga heima fyrir – átakið býður upp á allt þetta og meira til,“ sagði Josef Schmid í umræðunum.

Á síðdegisfundi samtakanna var boðið upp á þemaefni en þar gafst þátttakendum einstakt tækifæri til að hittast og ræða verkefnin og tækifærin í því að bregðast við loftslagsbreytingum og hvernig borgirnar gætu sameiginlega hafið aðgerðir til að ráðast gegn vandanum.

Í einum viðræðuhóp, skiptust borgarstjórar á reynslusögum um það hvernig best væri að samhæfa stefnumörkun í loftslagsmálum. „Samskipti við aðrar borgir í svipaðri stöðu munu hjálpa okkur mikið í því að bregðast við. Við græðum á því að sjá hvað aðrir eru að gera til að gera borgirnar okkar sterkari,“ sagði Nabilla Ait Daoud, staðgengill borgarstjóra Antwerpen.

Borgarstjórar bregðast við (Mayors Adapt)

Mestu áhrif loftslagsbreytinga finnast einna helst í borgum, þar sem flest fólk býr og þar sem helstu innviðir og verðmæt dreifikerfi eru. Þess vegna er algjörlega nauðsynlegt að borgir og sveitarstjórnir ræði loftslagsmál og bregðist við með sameiginlegu átaki. Áhrif loftslagsbreytinga munu hafa mest áhrif á borgir og bæi og er þá átt við veikleika sem hvert sveitarfélag glímir við.

Borgarstjórar bregðast við (Mayors Adapt) – samkomulag borgarstjóra um að bregðast við loftslagsvandanum var stofnað til að virkja borgir til aðgerða og til að styðja þær til framkvæmda.
Þetta er fyrsta átakið sem nær yfir alla Evrópu til að styðja borgir í því að hafa frumkvæði að stefnumörkun í aðgerðum gegn loftlagsbreytingum. Átakið hvetur borgir og sveitarfélög til að verða leiðandi í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum, til að sýna hvað vel er gert og deila því.

http://mayors-adapt.eu/