Borgarráð skorar á ríkisstjórnina

Stjórnsýsla Fjármál

""

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag að skora á ríkisstjórn Íslands að beita sér fyrir nauðsynlegum breytingum á tekjustofnum sveitarfélaga til að tryggja að þeir séu í samræmi við þau verkefni sem sveitarfélögum eru falin. Áskorunin var samþykkt af öllum fulltrúum borgarráðs nema einum sem sat hjá við afgreiðsluna.

Í greinargerð með áskoruninni kemur fram að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafi að undanförnu haldið fundi sín á milli þar sem þau hafa farið yfir alvarlega stöðu í fjármálum sveitarfélaga um land allt.

Þar kemur einnig fram að bæjarstjórn Garðabæjar hafi samþykkt í síðustu viku einróma samhljóða ályktun og borgarráð beri nú fram. Búast megi við að fleiri sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu fylgi í kjölfarið.

Í stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga 2014-2018 segir: „Sveitarfélögum skulu tryggðir nauðsynlegir tekjustofnar í samræmi við þau verkefni sem þeim eru falin í stjórnarskrá og lögum. Þeir skulu vera nægjanlega fjölþættir og sveigjanlegir í eðli sínu svo þeir geti staðið undir þeirri fjölbreyttu
þjónustu sem íbúar þeirra kalla eftir.”

Við núverandi aðstæður er ekki hægt að halda því fram að tekjustofnar sveitarfélaga standi undir þessum markmiðum. Benda má á að hvergi innan OECD er að finna lægra hlutfall tilfærslna frá ríki til sveitarfélaga en á Íslandi. Enn fremur er ljóst að verði ekkert að gert mun rekstrarkostnaður sveitarfélaga hækka langt umfram tekjur þeirra á næstu mánuðum og því muni sveitarfélögin eiga erfitt með að standa undir hlutverki sínu og skyldum á næstu misserum.

Brýnt er að gera eftirfarandi breytingar :

1. Undanþiggja sveitarfélög fjármagnstekjuskatti

Sveitarfélög á Íslandi eru undanþegin almennum ákvæðum laga um að greiða tekju- og eignaskatt í ríkissjóð eins og í öðrum löndum en þetta undanþáguákvæði nær ekki til fjármagnstekjuskatts. Uppruni fjármagnstekna sveitarfélaga er í flestum tilvikum vegna vaxtatekna af skattgreiðslum eftir gjalddaga eða af sjóðum sem sveitarfélög halda til að geta staðið tryggilega undir greiðsluskuldbindingum sínum. Sveitarfélög geta ekki dregið vaxtagjöld frá áður en til skattlagningar kemur eins og fyrirtæki og er þannig gróflega mismunað í samanburði við aðra lögaðila. Eðlilegast væri að ríkið hætti með öllu að taka fjármagnstekjuskatt af sveitarfélögum eins og þegar gildir um Innheimtustofnun sveitarfélaga en þar voru rökin einmitt þau að vaxtatekjur stofnunarinnar mátti einkum rekja til of seint fram kominna skuldaskila meðlagsgreiðenda. Þá er sérstakt tilefni til að skoða hvort tryggja eigi sveitarfélögum hlut í tekjum ríkissjóðs af fjármagnstekjuskatti vegna þess fjölda einstaklinga og lögaðila sem þiggja þjónustu sveitarfélagsins en greiða litla eða enga skatta til hlutaðeigandi sveitarfélags.

2. Undanþiggja sveitarfélög virðisaukaskatti

Starfsemi sveitarfélaga á ekki að mynda skattstofn fyrir ríkið. Til að koma í veg fyrir það er nauðsynlegt að endurskoða gagngert þær reglur sem gilda um endurgreiðslu virðisaukaskatts af almennri starfsemi og fjárfestingum sveitarfélaga. Þess má geta að á Norðurlöndunum er meginreglan sú að sveitarfélögin beri ekki sérstakan kostnað af virðisaukaskatti, en til samanburðar er nettógreiðslubyrði sveitarfélaga á Íslandi af virðisaukaskatti 8-10 milljarðar króna á ári.

3. Tryggja fjármögnun sveitarfélaga á málefnum fatlaðs fólks

Mikilvægt er að tryggja fjármögnun á málaflokki fatlaðs fólks. Í fjárlagafrumvarpi 2016 er ekki gert ráð fyrir að ríkið komi með viðbótarfjármagn til að mæta miklum hallarekstri sveitarfélaganna á málaflokki fatlaðs fólks, þrátt fyrir að við yfirfærslu málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga hafi verið gert ráð fyrir að sveitarfélögin fengju fulla fjármögnun vegna verkefnisins.

4. Lagaheimild til að leggja á ferðamannaskatt

Mikilvægt er að tryggja fjármögnun sveitarfélaga á þeim útgjöldum sem á þau falla vegna mikillar aukningar ferðamanna. Annað tveggja verði þeim heimilað að leggja á sérstakan ferðamannaskatt að erlendri fyrirmynd með breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga eða að þau fái hlut af gistináttagjaldi sem yrði hækkað og hlut af virðisaukaskatti af bílaleigum.

5. Tryggja fjármögnun sveitarfélaga á fjárhagsaðstoð og sérstökum húsaleigubótum

Mikilvægt er að endurskoða hlutverk Jöfnunarsjóðs með það fyrir augum að tryggja fjármögnun sveitarfélaga á fjárhagsaðstoð og sérstökum húsaleigubótum. Hugsanlega má fjármagna útgjöld sveitarfélaga með því að þau fái hlutdeild í almenna hluta tryggingagjaldsins til að standa undir kostnaði við fjárhagsaðstoð og virkniúrræði fyrir notendur félagsþjónustu sveitarfélaga. Jafnframt er
áréttað er að löngu tímabært að lækka tryggingagjald þannig að innheimta þess taki mið af lækkandi atvinnuleysi og stöðunni á vinnumarkaði. Ljóst er að kröfur sem gerðar eru í atvinnuleysistryggingakerfinu útiloka frá bótarétti þá  einstaklinga sem ekki hafa atvinnureynslu. Einnig hefur kerfið stytt verulega bótatímabil atvinnulausra með þeim afleiðingum að langtímaatvinnulausir lenda fyrr á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga.

6. Tryggja sveitarfélögum hlutdeild í sköttum af umferð

Sveitarfélög fái hlutdeild í sköttum af umferð, s.s. bensínskatti og olíugjöldum, til að standa að hluta undir útgjöldum þeirra vegna viðhalds- og stofnkostnaðar við gatna- og vegagerð.

7. Undanþágur frá álagningu fasteignagjalda verði felldar niður

Öll mannvirki verði háð fasteignamati og jafnframt verði allar undanþágur frá álagningu fasteignaskatts felldar niður. Í þessu samhengi þarf einnig að endurskoða skyldur sveitarfélaga til að láta endurgjaldslaust í té lóðir undir framhaldsskóla, kirkjur/bænahús og sjúkrastofnanir.

8. Lækka innheimtuprósentu ríkisins vegna innheimtu útsvars

Ríkið fær 0,5% af útsvari sveitarfélaga fyrir að annast innheimtu útsvars. Til upplýsingar nemur útsvarsstofn Reykvíkinga um 460 ma.kr. og útsvarstekjur um 65 ma.kr. Þegar þessu fyrirkomulagi var komið á var álagningarhlutfall útsvars tæplega helmingi lægra en nú er og þessi gjaldtaka mun minni í raun. Hækkun álagningarhlutfalls útsvars hefur ekki leitt til mikilla breytinga á innheimtuverkefninu sem slíku en hefur hins vegar stóraukið greiðslur sveitarfélaga til ríkissjóðs.

Rétt er að minna á að hlutverk sveitarfélaga er ekki aðeins að veita íbúum sínum þjónustu, þótt það sé vissulega mikilvægt, heldur eru markmið þeirra einnig að stuðla að valddreifingu og samkeppni í samfélaginu, auka hagkvæmni og að styrkja lýðræðið með aukinni þátttöku íbúa. Sveitarfélög gegna þannig lykilhlutverki í lýðræðissamfélögum og er afar brýnt að haga málum þannig að þau geti gegnt því með sóma.