Barnamenning í Breiðholti

Skóli og frístund

""

Börn af frístundaheimilunum í Breiðholti taka þátt í Barnamenningarhátíð í ár, eins og endranær. Framlag þeirra er tvískipt í þetta sinn, annars vegar sýning á teiknimyndasögum sem þau hafa unnið í vetur og hins vegar „fjölbreytileikakarl“.

Í vetur hafa frístundaheimilin unnið með þemu tengd listum. Eitt þeirra snérist um að útbúa frumsamdar teiknimyndasögur og leyfa þar með sköpunargleði og hugmyndaflugi að njóta sín, jafnframt sem þau fengu örlitla innsýn í hvernig saga er uppbyggð. Sýnishorn af verkefnum barnanna var notað til að útbúa litla sýningu sem sett var upp í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi.

Fjölbreytileikakarlinn er fígúra sem var búinn til úr hænsnaneti og pappamassa, með það að markmiði að sýna hvernig margir ólíkir og fjölbreyttir hlutar koma saman og mynda heild. Hvert frístundaheimili fékk úthlutað líkamshluta til að búa til og skreyta. Hlutarnir voru síðan settir saman í stærðarinnar karl sem stendur í anddyri Frístundamiðstöðvarinnar Miðbergs.