Barnadagur í Viðey

Mannlíf

""

Hinn árlegi Barnadagur verður haldinn í Viðey sunnudaginn 2. júlí frá kl. 13:00 – 16:00. 

Eins og nafnið bendir til er dagurinn helgaður börnum og fjölskyldum þeirra enda er Viðey með sín fallegu tún og fjörur kjörinn staður til barnaleikja.

Sirkus Íslands skemmtir börnunum með ævintýralegum kúnstum sínum og Húlladúllan kennir krökkum listina að húlla. Fjölskyldujóga með Arnbjörgu Kristínu jógakennara, Fjörufjör með háfa og fötur og skemmtilegu útileikirnir verða á sínum stað. Einnig geta krakkar spreytt sig á því að poppa yfir opnum eldi.

Hægt verður að kaupa grillaðar pylsur við Viðeyjarstofu allan daginn. Ókeypis ís í boði á meðan birgðir endast.

Dagskráin stendur frá 13:00-16:00. Ferjurnar fara frá Skarfabakka yfir sundið samkvæmt áætlun,  eða eftir þörfum.

Athugið að oft myndast langar biðraðir í ferjuna og því er nauðsynlegt að mæta tímalega til að ná fyrsta atriði dagsins. Hægt er að kaupa miða í ferjuna daginn áður í miðasölu Eldingar.

Dagskrá
13:00              Sirkus Íslands með fjörugt atriði.
13:30              Húlladúllan sýnir listir sínar og kennir krökkum að húlla.
14:00              Fjölskyldujóga og slökun.
13:00-16:00    Fjörufjör og rannsóknarleiðangur í fjörunni. Komið með háfa og fötur!
13:00-16:00    Poppað yfir opnum eldi.
13:00-16:00    Fjörugar furðuverur heilsa upp á krakkana í eyjunni.
13:00-16:00    Útileikir fyrir krakka á öllum aldri.

Gjald í ferjuna fram og til baka er 1.500 kr. fyrir fullorðna, 1.350 kr. fyrir eldri borgara og 750 kr. fyrir börn 7 – 17 ára í fylgd fullorðinna. Börn 6 ára og yngri sigla frítt. Við minnum á að handhafar Menningarkorts Reykjavíkur fá 10% afslátt í Viðeyjarferjuna og handhafar Gestakortsins sigla frítt.

Við bjóðum öll börn og fjölskyldur þeirra hjartanlega velkomin!