Aukið lýðræði barna og ungmenna

Skóli og frístund

""
Starfshópi hefur verið falið að skoða hugmyndir um umboðsmann ungmenna, fyrirkomulag ungmennaþings og leita fyrirmynda í lýðræðisstarfi hér á landi og erlendis. 
Skóla- og frístundaráð hefur ákveðið að setja á fót starfshóp um aukið lýðræði barna og ungmenna. Hópurinn mun skoða sérstaklega hugmyndir um umboðsmann ungmenna, fyrirkomulag ungmennaþings og leita fyrirmynda í lýðræðisstarfi hér á landi og erlendis.

Einn af umbótaþáttunum í stefnu og starfsáætlun skóla- og frístundasviðs fyrir árið 2015-2016 er lýðræði, jafnrétti og mannréttindi. Lýðræði er jafnframt einn af grunnþáttum menntunar í leik- og grunnskólum.

Í skýrslu starfshóps á vegum skóla- og frístundasviðs um nemendamiðað skólastarf frá því í júní á þessu ári kemur skýrt fram að ýmis sóknarfæri snúa að því að vinna með aukið lýðræði barna- og unglinga inni í grunnskólum. Þar er m.a. lagt til að auka þurfi stuðning og fræðslu um skólaráð, taka meira tillit til radda nemenda, halda námskeið um borgaravitund og styðja þá sem hafa áhuga á að þróa og vinna með nemendamiðað skólastarf.

Innleiðing og löggilding Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á Íslandi gerir einnig þá kröfu að markvisst sé unnið að því að innleiða hann í starfsemi á vegum borgarinnar, s.s. gr. 12 um rétt barna til að láta skoðanir sínar í ljós og til að hafa áhrif, gr. 13. um tjáningarfrelsi barna og gr. 17. um aðgang barna að upplýsingum.

 
Starfshópurinn um aukið lýðræði barna og ungmenna verður skipaður fulltrúum stjórnenda leikskóla, grunnskóla og frístundamiðstöðva, fulltrúum menntavísindasviðs HÍ, fulltrúum Reykjavíkurráðs ungmenna, fulltrúum foreldra og sérfræðingum á skóla- og frístundasviði.

Stórfundur með unglingum um stefnumótun í málefnum ungs fólks
Í frístundastarfi er löng hefð fyrir því að vinna með barna- og unglingalýðræði. Þann 19. nóvember næstkomandi stendur t. d. til að halda stórfund í Ráðhúsinu með 200 unglingum í 8.-10. bekk í tengslum við stefnumótun í frístundastarfi og er það liður í markvissu lýðræðisstarfi á vegum frístundamiðstöðva og ungmennaráða í borginni.