Arna Schram ráðin sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar

Menning og listir Stjórnsýsla

""

Borgarráð hefur samþykkt ráðningu Örnu Schram í stöðu sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar. Staða sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs var auglýst laus til umsóknar þann 25.febrúar sl. og rann umsóknarfrestur út þann 13. mars sl. Alls bárust 25 umsóknir, 6 umsækjendur drógu umsókn sína tilbaka og úrvinnsla fór því fram á 19 umsóknum

Það var samdóma álit valnefndar sem fór yfir umsóknir og tók viðtöl við umsækjendur að Arna Schram uppfyllti best umsækjenda þær kröfur sem gerðar eru til starfs sviðsstjóra og fram komu í auglýsingu um starfið.

Arna hefur starfað sem forstöðumaður menningarmála hjá Kópavogsbæ síðan í febrúar 2011. Ferðamálin heyrðu undir starfssvið hennar fyrstu árin og hefur hún því reynslu og þekkingu á því sviði. Hún hefur í störfum sínum fyrir Kópavogsbæ öðlast fjölbreytta þekkingu og reynslu af stefnumótunarvinnu. Má þar nefna að hún hefur stýrt stefnumótunarfundi í ferðamálum og nýrri menningarstefnu auk þess sem hún hefur unnið að innleiðingu stefnunnar. Í núverandi starfi stýrir hún málaflokki með hátt í 50 starfsmönnum hjá 6 ólíkum menningarstofnunum. Um er að ræða stjórnendur, sérfræðinga og almenna starfsmenn. Í starfi sínu hefur hún haft yfirumsjón með rekstri málaflokksins.

Arna hefur lokið B.A. gráðu í stjórnmálafræði og heimspeki frá Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla auk MBA gráðu með áherslu á stjórnun, rekstur og markaðsmál frá Háskólanum í Reykjavík.

Hlutverk sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar er dagleg yfirstjórn á menningar- og ferðamálasviði auk þess sem hann ber ábyrgð á rekstri, þjónustu og stjórnsýslu sviðsins.

Á sama tíma og Örnu er óskað farsældar í starfi er öðrum umsækjendum þakkaður sýndur áhugi og óskað velfarnaðar.