Annasamir og ánægjulegir dagar í Árbænum

Velferð

""

Vinnuvika borgarstjóra hélt áfram í hverfi Árbæjar og Grafarholts í dag, fimmtudaginn 26. mars. Auk þess að sitja fund borgarráðs kynnti hann sér þjónustumiðstöðina í hverfinu, heilsugæsluna og félagsstarfið  í Hraunbæ 105.

Borgarráðsfulltrúar fóru með borgarstjóra í Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts þar sem þau kynntu sér starf miðstöðvarinnar. Sérfræðiþjónusta skóla, samstarf við heilsugæslu og sameining félagslegrar heimaþjónustu og heimahjúkrunar var meðal þess sem bar á góma í umræðum við starfsfólk stöðvarinnar.

Gunnar Ingi Gunnarsson, yfirlæknir, tók á móti borgarstjóra og formanni hverfisráðs og sagði þeim frá starfi heilsugæslunnar m.a. því að nýjir Reykvíkingar eru flestir í Árbæ og ungbarnaeftirlit ríkur þáttur í vitjunum heilsugæslunnar. Ríflega 23 þúsund einstaklingar komu í heilsugæsluna á síðasta ári en í Árbænum, líkt og í öðrum hverfum borgarinnar, vantar fleiri heimilislækna. Talsverð umræða hefur verið um heilsugæsluna undanfarin ár og t.d. um hvort hana eigi að færa frá ríki til sveitarfélaga.

Að lokum kíkti borgarstjóri í kaffi hjá félagamiðstöðinni Hraunbæ 105. Þar var páskabingói nýlokið og salurinn var þéttsetinn. Margir vildu spjalla við Dag um ýmis málefni borgarinnar ekki síst það sem snéri að skipulagi.