1600 börn í Hörpu á setningarathöfn Barnamenningarhátíðar

Mannlíf Mannréttindi

""

Barnamenningarhátíð 2017 verður sett á morgun í sjöunda sinn í Hörpu kl. 11 og hefur 1.600 fjórðu bekkingum úr grunnskólum í Reykjavík verið boðið að vera við athöfnina. Salka Sól tónlistarkona frumflytur hátíðarlagið Ekki gleyma ásamt krökkunum en þau tóku þátt í að semja textann. Börnin unnu verkefni í skólunum sem fólst í að svara spurningunni Hvað getum við gert til að vernda jörðina? Hugmyndir þeirra urðu síðan að innleggi í lag tónlistarkonunnar. Í ár tengist þema opnunarviðburðarins umhverfisvitund og verður náttúrunni fagnað með fjölbreyttum hætti í Hörpu.

Barnamenningarhátíð 2017 verður sett á morgun í sjöunda sinn í Hörpu kl. 11 og hefur 1.600 fjórðu bekkingum úr grunnskólum í Reykjavík verið boðið að vera við athöfnina. Salka Sól tónlistarkona frumflytur hátíðarlagið Ekki gleyma ásamt krökkunum en þau tóku þátt í að semja textann. Börnin unnu verkefni í skólunum sem fólst í að svara spurningunni Hvað getum við gert til að vernda jörðina? Hugmyndir þeirra urðu síðan að innleggi í lag tónlistarkonunnar. Í ár tengist þema opnunarviðburðarins umhverfisvitund og verður náttúrunni fagnað með fjölbreyttum hætti í Hörpu.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri setur hátíðina í samstarfi við börnin í salnum og stendur dagskráin fram á kvöld. Meðal viðburða er lúðrablástur, atriði úr leikritinu Bláa hnettinum, listdans, hipphoppdans, rapparinn Ljúfur Ljúfur flytur Orðbragslagið og hver veit nema að spennandi leynigestur láti sjá sig.

700 leikskólabörn flytja lög Ólafs Hauks Símonarsonar
Aðrir viðburðir opnunardagsins eru Eniga Meniga á vegum Tónskóla Sigursveins þar sem  700 leikskólabörn flytja lög Ólafs Hauks Símonarsonar kl 13.30 og 15 í Eldborg. Um er að ræða samstarfsverkefni Tónskóla Sigursveins við yfir 30 leikskóla í Reykjavík. Viðburðurinn er opinn öllum.
Upptakturinn- Tónsköpunarverðlaun barna og ungmenna
Upptakturinn er spennandi verkefni Hörpu, Listaháskóla Íslands og Barnamenningarhátíðar. Með Upptaktinum er áhersla lögð á að hvetja ungt fólk til að semja tónlist og senda inn eigin tónsmíðar. Valin verk eru síðan fullunnin af fagmönnum með aðstoð tónskálda og flutt af fagfólki í tónlist. Tónverkin verða flutt á metnaðarfullri og glæsilegri tónleikadagskrá í Kaldalónssal Hörpu kl. 17. 

70 ára hátíðarsýning Félags íslenskra listdansara
Slegið verður upp allsherjar dansveislu í Eldborg kl. 19.30 þar sem listdansskólar höfuðborgarsvæðisins sameina krafta sína og fagna 70 ára afmæli Félags íslenskra listdansara. Þátttakendur í sýningunni eru nemendur skólanna á aldrinum 4 - 18 ára. Hér gefst tækifæri til að sjá unga og efnilega dansara taka sín fyrstu skref á stóru sviði. Sýningin er opin öllum og er fólk hvatt til að mæta með alla fjölskylduna.
Hægt verður að fylgjast með viðburðum hátíðarinnar næstu sex daga á KrakkaRÚV þar sem ungir fréttamenn úr 8.-10. bekk sinna fréttamiðlun. Um er að ræða samstarf hátíðarinnar og KrakkaRÚV. Opnunarviðburðurinn verður sýndur á RÚV 2. 

Barnamenningarhátíð er þátttökuhátíð skipulögð af Höfuðborgarstofu og verkefnastjóra barnamenningar í Reykjavík. Með hátíðinni skapast vettvangur fyrir menningu barna, menningu með börnum og menningu fyrir börn. Yfir 150 viðburðir eru í boði í ár.

Bæklingur Barnamenningarhátíðar.