Betri útivistarsvæði eru Breiðhyltingum hugleikin

Framkvæmdir Íþróttir og útivist

""

Bætt útivistarsvæði ásamt fræðslu um fuglalíf í Elliðaárdalnum eru meðal þeirra verkefna sem íbúar í Breiðholti völdu og komust til framkvæmda í tengslum við verkefnaval „Betri hverfa“ í fyrra.  Íbúar sendu fyrst inn hugmyndir sem síðan var kosið um í opinni rafrænni kosningu.

Óskir íbúa í Breiðholti beindust einkum að bættu umhverfi, leiksvæðum og útivistarmöguleikum jafnt fyrir menn sem dýr, en hundagerði var á óskalistanum. 

  1. Gerðar voru endurbætur við tjörnina í miðju Seljahverfis m.a. var sett þar nýtt leiktæki.
     
  2. Leiktæki á skólalóð Ölduselsskóla voru endurbætt.
     
  3. Fjarlægðir voru stálbogar sem hindruðu gangandi og hjólandi fólk.
     
  4. Gerðar voru endurbætur á leiksvæði við Engjasel.
     
  5. Sett voru ræsi á nokkrum stöðum á göngustíg ofan Elliðaárstíflu til að losna við klaka sem myndast í frosti.
     
  6. Leikvellir í Seljahverfi voru endurbættir og þar voru einnig settir fleiri ruslastampar.
     
  7. Fleiri ruslastampar voru settir upp á nokkrum stöðum í hverfinu.
     
  8. Undirgöng undir Breiðholtsbraut við Leirubakka voru merkt betur til hagsbóta fyrir gangandi og hjólandi.
     
  9. Hundagerði var sett upp við Arnarbakka.
     
  10. Fræðsluskilti voru sett upp  í Elliðaárdal um fuglalífið á svæðinu.
     
  11. Öryggi á gönguleið við Arnarbakka frá Réttarbakka að Núpabakka var bætt með færslu á biðskyldumerkjum.
     
  12. Trimmstígur og æfingaaðstaða við Bakkalund var sett upp. Þá hefur verið gengið betur frá umhverfi Bakkalundar og gróðurkerjum
    komið fyrir.
     
  13. Gróðursettir voru ávaxta- og berjarunnar á nokkrum stöðum í hverfinu t.d. við Stekkjaróló, Vesturberg, Suðurhóla og Flúðasel.
     

Framkvæmdafé vegna verkefna Betri hverfa í Breiðholti var í fyrra um 46 milljónir króna og verður það óbreytt í ár.  Vefurinn Betri Reykjavík – Betri hverfi er nú opinn fyrir móttöku hugmynda og rökræðum íbúa vegna smærri hverfaverkefna. Í mars verður kosið um verkefni til framkvæmda.

Borgarstjóri stendur fyrir íbúafundum í öllum hverfum nú í janúar. Fundað verður í Gerðubergi þriðjudaginn 22. janúar kl. 17.