Áhugasamir Árbæingar um nýtt aðalskipulag

Rúmlega 30 íbúar í Árbænum mættu á opinn fund um nýtt aðalskipulag sem haldinn var í Fylkishöllinni í gær. Fundurinn var sá næst síðasti í röðinni af alls tíu fundum sem eru haldnir í öllum hverfum borgarinnar. Fundirnir bera yfirskriftina Borg fyrir fólk – betri hverfi og er farið yfir áherslur í hverfum og breytingar á aðalskipulagi. Síðasti fundurinn er síðan eftir páska en þá lýkur fundaröðinni í miðborginni. Á fundunum þá gefst íbúum kostur á að koma með hugmyndir sem teknar verða til álita af skipulagsyfirvöldum og hafa margar góðar hugmyndir litið dagsins ljós á öllum fundum.

Páll Hjaltason formaður skipulagsráðs og Ólöf Örvarsdóttir, skipulagsstjóri Reykjavíkurborgar héldu inngangserindi á fundinum um aðalskipulagið. Haraldur Sigurðsson, skipulagsfræðingur, fjallaði síðan um helstu áherslur í skipulagsmálum í nýju aðalskipulagi. Í Árbænum er almennt um að ræða óverulegar breytingar frá gildandi aðalskipulagi. Þó er allnokkur aukning byggingarmagns á atvinnusvæðum í jaðri hverfisins, einkum í Hálsahverfi. Í tillögunum er gert ráð fyrir þéttingu byggðar við Rafstöðvarveg, í jaðri Ártúnsholts og við Brekknaás og gert er ráð fyrir íbúðum á efri hæðum í þjónustukjörnum í hverfinu. Mun skýrari stefna er um opin svæði, minni græn svæði fest í sessi og ákveðnari mörk útivistarsvæðis í Elliðaárdal. Einnig er lagt til að helstu verslunar- og þjónustulóðir verði festar í sessi og mörkuð ákveðin stefna um alla þjónustukjara.

Að lokinni kynningu á aðalskipulagi gátu fundarmenn raðað sér niður í hópa allt eftir áhugasviði, t.d. opin svæði og íþróttir, samgöngur, þétting byggðar o.fl. til þess að ræða hin ýmsu mál og koma með tillögur að því sem betur má fara í Árbænum. Helstu umræðuefni sem komu upp voru t.a.m. ný stúka við Fylkisvöllinn, skoðanir með og á móti þéttingu byggðar í Elliðaárdalnum og það að uppbygging í dalnum spili með og styðji við útivistina í dalnum. Nefndar voru óskir um lítil sérbýli fyrir eldri borgara sem vilja minnka við sig án þess að flytja úr hverfinu. Samgöngur og tengingar göngu- og hjólaleiða milli Seláss og Norðlingaholts þarf að bæta og koma upp göngu- og hjólabrú milli Seláss og Norðlingaholts. Einnig voru nefndar hugmyndir um vegtengingu milli Hádegismóa og Grafarholts ásamt því að finna þyrfti framtíðarsvæði fyrir hestamenn til viðbótar við Víðidal.

Kynningarefni frá fundinum (PDF).