Reykjavíkurborg hefur fjölgað vinnustöðum sem taka þátt í tilraunaverkefni um styttri vinnuviku án launaskerðingar. Þrír starfsstaðir bætast við í nóvember, og nær tilraunin á þessum stöðum til um 110 starfsmanna.
Starfstaðirnir eru, Laugardalslaug, leikskólinn Hof og félagsleg heimaþjónusta og heimahjúkrun í efri byggð fyrir Breiðholt, Árbæ, Grafarvog og Grafarholt sem stýrt er frá þjónustumiðstöðinni í Árbæ. Með fjölgun starfsstaða nú nær verkefnið í heild til um 300 starfsmanna Reykjavíkurborgar á 11 starfsstöðum.
Tilraunaverkefnið hófst vorið 2015 á skrifstofu Barnaverndar Reykjavíkur sem og í þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts. Niðurstöðurnar voru jákvæðar og bentu til þess að stytting vinnuvikunnar hafi jákvæð áhrif á heilsu, vellíðan, starfsanda og þjónustu. Fyrir vikið var ákveðið að útfæra verkefnið frekar og kanna hver áhrifin gætu orðið á ólíkum starfsstöðum borgarinnar.
Þann 1. október sl. hófu hverfa- og verkbækistöðvar umhverfis- og skipulagssviðs þátttöku í tilraunaverkefninu. Fjölgaði þá um 130 starfsmenn sem taka þátt en fyrir voru 65 starfsmenn þátttakendur á starfsstöðum Barnaverndar og þjónustumiðstöðvarinnar.
"Við erum ákaflega glöð að fá inn í verkefnið alla þessa traustu vinnustaði. Góð undirbúningsvinna hefur farið fram á þeim öllum og leggja stjórnendur og starfsfólk til hvaða útfærsla hentar á hverjum vinnustað. Starfsstaðirnir sem taka þátt eru ólíkir sem varpar vonandi góðu ljósi á þessa hugmynd sem margir hafa kallað eftir um styttingu vinnuvikunnar," segir Magnús Már Guðmundsson, borgarfulltrúi og formaður stýrihóps um styttingu vinnuvikunnar.
Í Laugardalslaug, á Hofi og í heimaþjónustu og heimahjúkrun í efri byggðum verður vinnutími starfsfólks styttur um 4 tíma á viku miðað við fullt starf. Útfærslur eru ólíkar milli starfsstaða og jafnvel innan starfsstaða en uppleggið var unnið af yfirmönnum í samstarfi við starfsfólk á hverjum vinnustað. Á öllum starfsstöðunum er unnið með það að leiðarljósi að þjónustan haldist óbreytt.
Eftirfylgd með verkefninu verður lík því sem hefur verið í þeim verkefnum sem þegar eru yfirstandandi, þ.e. gerðar verða kannanir meðal starfsfólks, fylgst með yfirvinnu, veikindafjarvistum, málafjölda þar sem það á við auk þess sem foreldrar barna á leikskólanum verða spurðir álits.
"Meginmarkmið er að stuðla að heilbrigðum og fjölskylduvænum vinnumarkaði með styttri heildarvinnutíma. Með tilraunaverkefninu stígur Reykjavíkurborg mikilvægt skref í þessum efnum. Að sama skapi gleðjumst við yfir því að ríkið mun eftir áramót hefja tilraun um styttingu vinnuvikunnar á fjórum starfsstöðum sínum. Óskandi væri ef fyrirtæki og fleiri sveitarfélög prófuðu sig áfram. Við höfum boðist til aðstoða alla þá sem hafa áhuga á að kanna þetta og það boð stendur enn," segir Magnús Már að lokum.