Verum virk með ævinámi.

Velferð Mannlíf

""
Í gær lauk formlega Evrópuverkefni sem fjallar um "þriðja æviskeiðið", sem hefur staðið undanfarin tvö ár. Verkefnið heitir "Be Active through Life Long Learning - BALL" eða „Verum virk með ævinámi“. Reykjavíkurborg á aðild að verkefninu.
Breytingar eiga sér nú stað á aldurssamsetningu Evrópuþjóða. Bætt heilsufar og aukið langlífi hafa ásamt minnkandi frjósemi þær afleiðingar að riðla smám saman jafnvæginu milli aldurshópa í þjóðfélaginu. Elstu kynslóðirnar fara stækkandi í hlutfalli við hinar yngri og af þeim sökum er því miður oft fjallað um þær sem vaxandi byrði á þjóðfélaginu. BALL verkefnið beinir augum að því að fremur beri að líta á þessar kynslóðir eldri borgara sem feng. Árin eftir miðjan aldur, þegar fólk nálgast starfslok og kemst á eftirlaunaaldur, eru stundum nefnd „hin gullnu fullorðinsár“ eða þriðja æviskeiðið.
Þessar kynslóðir eiga bæði auðvelt með og eru fúsar til að deila reynslu sinni og þekkingu með öðrum og stuðla þannig að framförum og auknum afköstum í þjóðfélaginu. Það skiptir öllu máli um félagslega ábyrgð og virka samfélagsþátttöku eldri borgara að þessi ár séu nýtt sem tími tækifæra.
 
BALL-verkefnið nýtur stuðnings áætlunar Evrópusambandsins Erasmus+,  en það eru Evris og U3A sem eru fulltrúar Íslands í verkefninu og Reykjavíkurborg á aðild að því sem faglegur og fjárhagslegur bakhjarl.
 
Í leiðarvísinum Til móts við þróttmikið þriðja æviskeiðið sem nú lítur dagsins ljós eru hugmyndir sem byggjast á umfangsmiklum rannsóknum, könnunum og þróunarvinnu sem fram fór  í þátttökuríkjunum þremur – Íslandi, Póllandi og Spáni – og voru mótaðar með
það í huga að þær gætu nýst í öllum Evrópulöndunum. Leiðbeiningunum sem beint er til allra þeirra aðila, opinberra eða einkarekinna,
sem hafa þær skyldur eða telja sér hag í að bjóða ráðgjöf vegna undirbúnings þriðja æviskeiðsins. Þær snúast um þrjár ráðstafanir sem staðið geta sjálfstætt en tengjast jafnframt þannig að bestur árangur næst með því að framkvæma þær sem eina heild.

Á heimasíðu BALL verkefnisins má nálgast allar upplýsingar um leiðarvísinn Til móts við þróttmikið þriðja æviskeiðið og fleira efni.