Vefmyndavélar bæta vetrarþjónustu í borginni

Samgöngur Umhverfi

""

Vefmyndavélar sem starfsmenn Reykjavíkurborgar nota til að meta færð á götum borginnar eru nú aðgengilegar öllum á vefsíðunni reykjavik.is/vefmyndavelar.

„Vefmyndavélarnar auðvelda okkur að meta færðina og taka ákvörðun um  hvenær við köllum út snjóruðningstæki og saltbíla,“ segir Þröstur Ingólfur Víðisson yfirverkstjóri vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar.  „Þessi tækni bætir yfirsýn okkar og ákvarðanir um aðgerðir eru byggðar á betri upplýsingum. Við náum að bregðast fljótar við og skilvirkari vinnubrögð spara fé“.

Þröstur segir að líta megi á vefmyndavélarnar sem aukna þjónustu við borgarbúa og því hafi verið tilvalið að ganga alla leið og gera þær aðgengilegar á vefnum.

Snjóþungi réð staðsetningu myndavélanna

Vefmyndavélar Reykjavíkurborgar eru á átta stöðum með tveimur linsum hverjum stað sem skilar sér í sextán sjónarhornum eða vefmyndum.  Staðsetning vélanna tók mið af því hvar snjóþungi hefur verið mestur í borginni undanfarin ár.  Reykjavíkurborg og Vegagerðin eiga í góðu samstarfi og er öllum vefmyndavélum miðlað á vefi beggja. Vélar Vegagerðinnar í Reykjavík eru á fjórum stöðum með alls þrettán linsum eða sjónarhornum.  Áhugafólk um færð í Reykjavík getur nú valið milli 29 mynda eða sjónarhorna á götur í Reykjavík.

Vélar borgarinnar eru af gerðinni Mobotix og er þeim komið fyrir í um sex metra hæð. Þær eru knúnar rafmagni frá ljósastaurum borgarinnar og sólarrafhlöðum sem hlaða á rafgeyma. Reynslan frá því síðasta vetur og frá því í sumar sýnir að þetta er fullnægjandi til að halda vélunum gangandi árið um kring.

Þröstur segir að rekstrarkostnaður sé lítill. Vélarnar þurfa lítinn straum og myndir eru sendar yfir farsímakerfið á nokkurra mínútna fresti, en engar upptökur eru gerðar.  „Vélarnar sönnuðu gildi sitt afdráttarlaust síðasta vetur, gáfu betri yfirsýn og minnkuðu akstur umtalsvert,“ segir Þröstur.

Nánari upplýsingar: