TINNA styrkir foreldra með hag barna í huga

Velferð

""

TINNA er tilraunaverkefni Velferðarráðuneytis og Velferðarsviðs Reykjavíkur. Markmið TINNU er að styðja unga einstæða foreldra sem hafa nýtt sér fjárhagsaðstoð til framfærslu hjá Þjónustumiðstöð Breiðholts til betra lífs.

Verkefnið, sem hófst í apríl 2016, felst í því að veita þátttakendum og börnum þeirra tækifæri til aukinnar virkni með fræðslu, menntun eða þátttöku á vinnumarkaði. Tilgangur verkefnisins er að auka lífsgæði foreldra og barna, rjúfa vítahring fátæktar og um leið félagslega arfinn þ.e. að auka líkurnar á að börnum þessara foreldra vegni betur í framtíðinni en foreldrunum.

Verkefnið Tinna er klæðskerasniðið fyrir hvern og einn notanda eftir þörfum hvers og eins. Námskeiðin og fræðslan er unnin í samvinnu við þarfir óskir þátttakenda og nú þegar hafa þeir fengið námskeiði í PMTO foreldrafærni, hannyrðum og matreiðslu.  Þá hefur starfsfólk Tinnu gert samstarfssamning og stofnað til samvinnu við ólíkar stofnanir með heildarsýn að leiðarljósi og stuðning  við þátttakendur.

Stuðningur við börnin er með ýmsum hætti, metnir eru áhættuþættir í lífi barnanna og þeim veittur stuðningur við hæfi. Þá er lögð áhersla á að börnin njóti sama aðgengis og önnur börn að hvers konar íþrótta- eða tómstundaiðkun.

TINNA er hluti af Fjölskyldumiðstöðinni í Gerðubergi en þar er mjög gott aðgengi að þjónustu og mikið utanumhald frá félagsráðgjöfum sem sinna ráðgjöf og eftirfylgd.

Verkefnið Tinna fer vel af staða, nú þegar er ein móðir komin í fullt starf og önnur í hlutastarf. Fimm þeirra sem taka þátt í TINNU eru nú komnar með endurhæfingaráætlun og endurhæfingarlífeyrir eða með umsókn um lífeyri. Endurhæfingaráætlanirnar snúa t.d. að skólagöngu, þátttöku á námskeiðum,  virkni, reglulegum viðtölum við félagsráðgjafa og vímuefnaprófunum.

Aðrir þátttakendur hafa m.a. nýtt sér þjónustu hjá Stígamótum, Reykjalundi, Kvennaathvarfi, Kvennasmiðju, Teig, Geðdeild LSH og öðrum deildum LSH, sótt stuðning hjá AA samtökunum og SÁÁ svo eitthvað sé nefnt.

Verkefnið og umgjörð þess byggist á niðurstöðum rannsóknar; Aðstæður reykvískra foreldra: Félagslegt tengslanet, tómstundir og almennt heilsufar barna, sem Rannsóknarstofnun í barna og fjölskylduvernd við Háskóla Íslands vann að beiðni velferðarsviðs borgarinnar og  Ritraðar VIII Jaðarstaða foreldra – velferð barna.