Tæknilausnir í velferðarþjónustu

""

Í nýrri þjónustustefnu Reykjavíkurborgar er lögð rík áhersla á að efla rafræna þjónustu og hanna hana út frá þörfum notenda þjónustunnar. Velferðarþjónustan er í forgangi þar sem sóknarfærin eru mörg og þörfin fyrir tækninýjungar rík.

Velferðarráð lagði í gær fram tillögur við borgarráð um að setja á stofn velferðartæknismiðju,  kaupa rafrænt heimaþjónustukerfi  og fá fjárveitingu til að flýta rafvæðingu á umsóknum um þjónustu hjá sviðinu.

Velferðartæknismiðja  myndi m.a. þróa lausnir í velferðarþjónustu, byggja upp þekkingarbrunn, prófa tæknilausnir og hýsa evrópsk styrkjaverkefni. Kveikjuna að velferðartæknismiðju má rekja til þátttöku Reykjavíkurborgar  í norrænum verkefnum um tæknilausnir. Þar ber hæst  samkeppni norrænu höfuðborganna um tæknilausnir í velferðarþjónustu í fyrra. Þar varð til fjöldi hugmynda að lausnum til að auðvelda fötluðu fólki og eldri borgurum daglegt líf. Velferðartækni  eykur sjálfstæði og lífsgæði þeirra sem þurfa þjónustu vegna fötlunar eða aldurs. Tæknin getur líka  auðveldað tengsl milli starfsfólks, ættingja og vina og nýst starfsfólki  við veitingu þjónustunnar.

Innleiðing á rafrænu heimaþjónustukerfi myndi auðvelda yfirsýn á heimaþjónustu, því hægt væri að skrá þjónustuna sem starfsmenn veita  á heimilum.  Verkefni dagsins og  samskipti milli stjórnanda og starfsmanna færu fram á rauntíma í gegnum snjallsíma og þannig yrði auðvelt að bregðast við breytingum og tryggja örugga og góða þjónustu. 

Loks þykir brýnt að rafvæða umsóknarferla velferðarsviðs þar sem margir umsóknarferlar um þjónustu sviðsins bíða rafvæðingar. Rafvæðing ferla sparar þeim sem þurfa á þjónustunni að halda dýrmætan tíma og dregur úr ferðalögum þeirra til að skila inn umsóknum og sækja fylgigögn hingað og þangað. Markmiðið er að allt verði hægt að klára í þægindum á einum stað á vef borgarinnar.

Borgarráð samþykkti að vísa þessum tillögum velferðarráðs til gerðar fjárhagsáætlunar og til umsagnar á skrifstofu þjónustu og reksturs og fjármálaskrifstofu.