Spennistöðin við Austurbæjarskóla verður félagsmiðstöð

Skóli og frístund

""

- Við viljum félagsmiðstöð, við viljum félagsmiðstöð -  hrópuðu nemendur í Austurbæjarskóla sem fóru í kröfugöngu frá Skólavörðuholti niður í Ráðhús í dag til að knýja á um að framkvæmdum við spennistöðina sem stendur við skólann verði hraðað en til stendur að breyta henni í miðstöð frístundastarfs í miðborginni. 

Jón Gnarr borgarstjóri og Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs tóku á móti göngunni sem foreldrafélag og nemendaráð Austurbæjarskóla og Íbúasamtök Miðborgar skipulögðu. 

Borgarstjóri greindi frá því að áætlanir borgarinnar um félagsmiðstöð í spennistöðinni myndu ganga eftir. Til verkefnisins yrði varið 20 milljónum króna á þessu ári og 45 milljónum á því næsta. Stefnt yrði að því að hefja starfsemi nýrrar félagsmiðstöðvar í spennistöðinni haustið 2014. Unglingar í göngunni buðu borgarstjóra að koma á tónlistarhátíðina Drullumall sem haldin verður í spennistöðinni þegar hún verður tilbúin en á þeirri tónlistarhátíð hafa margar vinsælar hljómsveitir komið fram, t.a.m, hljómsveitin Retro Stefson. 

Spennistöðin er autt húsnæði við hlið Austurbæjarskóla sem áður var í eigu Orkuveitu Reykjavíkur. Þar mun frístundarstarfið við skólann fá aðstöðu en til stendur að samnýta húsnæðið með ungmennum 16 -25 ára, íbúum og félagasamtökum í hverfinu.

Hugmynd um að breyta spennistöðinni í félagsmiðstöð og meðborgarahús fyrir miðbæjarbúa kom fram á samráðsvefnum Betri Reykjavík á árinu 2012.