Söfnun á plasti við heimili hefst á árinu

Umhverfi Heilbrigðiseftirlit

""

Tunna undir plast mun standa heimilum í Reykjavík til boða síðar ár þessu ári. Fundur verður á Kjarvalsstöðum í beinni útsendingu í kvöld um framtíð úrgangsmála.

Kannanir sýna að borgarbúar eru duglegir að flokka til endurvinnslu og vilja flokka enn meira. Reykjavíkurborg vill koma til móts við þessar óskir og mun heimilum fljótlega standa til boða sérstök tunna undir plastsöfnun. Hún verður græn á litinn og losuð á 28 daga fresti. Plastsöfnun við heimili er á starfsáætlun umhverfis- og skipulagssviðs 2015.

20% efnis í blönduðum úrgangi er plast um þessar mundir og því var 4000 tonnum af plasti urðað í Álfsnesi á síðasta ári. Kannanir sýna að borgarbúar vilja meiri þjónustu í úrgangsmálum við heimilin og þar eru konur áhugasamari en karlar því 59% kvenna vilja bæta við flokkunartunnu en 45% karla. 80% borgarbúa búa í fjölbýli og geta sameinast um tunnur undir plast. 

Úrgangsforvarnir eru málið

„Neysluhættir hvetja til sóunar í umbúðasamfélagi en hver og einn getur haft áhrif á myndun úrgangs með hegðun sinni og vali á vörum“, segir Eygerður Margrétardóttir, deildarstjóri umhverfis- og úrgangsstjórnunar hjá Reykjavíkurborg. „Það þarfa að vera auðvelt og ódýrt að vera umhverfisvænn, flokkun á plasti við heimili styður vistvænan lífsstíl“.

Úrgangsforvarnir eða að draga úr myndun úrgangs eru kjarninn í nýrri aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar um framtíð úrgangsmála. Kynningarfundur verður haldinn í kvöld á Kjarvalsstöðum kl. 20.00 þar sem borgarbúum gefst einnig kostur á að koma með athugasemdir og ábendingar. Tillögur að 42 aðgerðum verða aðgengilegar á fundinum og opnað fyrir umræðu og ábendingar.

Opinn fundur í beinni útsendingu

Hjálmar Sveinsson formaður umhverfis- og skipulagsráðs opnar fundinn og varpar fram sýn á úrgangsmálin og val á þjónustustigi. Eygerður Margrétardóttir, deildarstjóri umhverfis- og úrgangsstjórnunar, segir frá vinnunni við aðgerðaráætlunina og möguleikum í framtíðinni. Rakel Garðarsdóttir,  stofnandi Vakandi - samtaka sem vilja auka vitundarvakningu um sóun matvæla, fjallar um hvað neytandinn getur gert sjálfur til að draga úr sóun. Fulltrúar í aðgerðarhópi kjörinna fulltrúa munu nefna valin atriði úr áætluninni.

Allar ábendingar og tillögur um það sem betur mætti fara í áherslum borgarinnar til ársins 2020 í þessum mikilvæga málaflokki eru vel þegnar. Ábendingar hafa þegar borist um plastsöfnun við heimili og að dregið verði úr fjölpósti.

Fundurinn verður sendur út í beinni útsendingu á http://netsamfelag.is/ á þessari slóð: Fundur um framtíð úrgangsmála.

Óskað eftir tillögum.

Drög að aðgerðaáætlun.

Veggspjöld.