Skapandi samráð og íbúafundur í Ártúnsskóla

Stjórnsýsla Umhverfi

""
Fimmtudaginn 26. nóvember 2015 komu íbúar Ártúnsholts saman til að kynna sér hugmyndir að hverfisskipulagi fyrir hverfið og til að taka þátt í svokölluðu Skapandi samráði.
 
Hugmyndafræðin að baki skapandi samráði felst í því að börn í grunnskóla smíða einföld líkön af hverfinu sínu, sem eru síðan notuð til að ræða skipulagsbreytingar og framtíðarsýn fyrir hverfin.

Síðastliðna viku hafa nemendur í 6. bekk Ártúnsskóla tekið þátt í verkefninu og smíðuðu þau einfalt líkan af Ártúnsholti undir leiðsögn kennara og starfsfólks umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur. Líkanið var notað á íbúafundinum þar sem foreldar og aðrir íbúar í Ártúnsholti gátu lagt fram litla miða á líkanið og komið á framfæri eigin hugmyndum um framtíðarsýn fyrir hverfið, t.d.:
  • Hvaða breytingar þarf að gera?
  • Hvaða endurbætur þurfa að eiga sér stað?
  • Hvaða þjónustu vantar?
  • Hvar eru vannýtt tækifæri?
Á fundinum voru einnig kynntar fyrstu hugmyndir að hverfisskipulagi fyrir Ártúnsholt. Þar gátu íbúar gefið skoðanir sínar á ýmsum skipulagshugmyndum líkt og:
 
  • Hvernig megi mögulega útfæra nýja byggð fyrir 50 lítil sérbýlishús í suðurhlíðum Ártúnsholts við Rafstöðvarveg.
  • Hverjir eru kostir/gallar ef skrifstofubyggð í Hyljum fengi að þróast í blandaða íbúðarbyggð með verslun- og þjónustu á neðri hæðum og íbúðum á efri hæðum.
  • Hvernig megi bæta tengsl hverfisins við Árbæjarsafn.
  • Hvernig megi bæta útivistarsvæði í Elliðaárdalnum.
  • Hvernig megi bæta samgöngur í hverfinu fyrir gangandi, hjólandi, strætó og akandi.
Starfsfólk umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar vil þakka börnum og kennurum í Ártúnsskóla og íbúum í Ártúnsholti fyrir þátttökuna í verkefninu.

Næstu skref í verkefninu eru að greina þær hugmyndir sem komu fram á fundinum en stefnt er að því að kynna fyrstu drög að hverfisskipulagi fyrir hverfið upphafi árs 2016.

Næsta skapandi samráð mun eiga sér stað í neðra Breiðholti í desember. Dagsetningar um íbúafund því tengdu verða auglýstar síðar.