Samstarfssamningur um viðhald gatnakerfis höfuðborgarsvæðisins

Framkvæmdir Samgöngur

""

Vegagerðin, Reykjavíkurborg og Garðabær hafa undirritað samstarfssamning um undirbúning nauðsynlegs átaks í viðhaldi og endurbótum gatnakerfis höfuðborgarsvæðisins.

Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar undirrituðu samninginn í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag.

Samstarfið felur meðal annars í sér :

Sameiginlegt mat á ástandi, viðhaldsþörf og endurbótaþörf
Unnið verði sameiginlegt mat á þörf við viðgerðir, viðhald og endurbætur á gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins, Reykjavíkurborgar og Garðabæjar sérstaklega eftir erfiða vetur og sparnað síðustu ára. Jafnframt verði lagt mat á hlut slits vegna aukningar umferðar, vaxandi ferðaþjónustu (bílaleigubílar og rútur), notkunar nagladekkja, veðurfars og annarra atriða.

Áætlun um viðhald og endurbætur
Lagt verði mat á kostnað við átakið og nauðsynlegar framkvæmdir.
Unnin verði sameiginleg viðhalds- og endurbótaáætlun fyrir vega- og gatnakerfi Reykjavíkurborgar og Garðabæjar  með það að markmiði að tryggja viðundandi þjónustustig.

Fjármögnun
Vegagerðin mun miða við að fjárheimildir til viðhalds á þeim hluta gatnakerfisins, sem hún ber ábyrgð á, verði í samræmi við niðurstöður matsins en endanlegt umfang á hverju ári mun ráðast af heildar fjárveitingum stofnunarinnar til viðhalds vega á hverjum tíma. Reykjavíkurborg og Garðabær munu með sama hætti nýta fjármuni til viðgerða, viðhalds og endurbóta og gera tillögur um nauðsynlegar fjárveitingar  til verkefnisins til næstu ára.  

Rannsóknir
Vegagerðin, Reykjavíkurborg og Garðabær dragi svo saman þær rannsóknir sem fyrir liggja um gatnagerð, malbikslagnir og væntan endingartíma. Sérstaklega verði hugað að umhverfissjónarmiðum og mögulegri endurnýtingu malbiks. Greindar verði ástæður versnandi ástands, skemmda og holumyndunar í gatnakerfinu og gerðar tillögur að frekari rannsóknum þar sem þekkingu skortir.

Aðilar samkomulagsins munu skipa sameiginlega verkefnisstjórn.