Samráð, gagnsæi og sjálfbærni í hverfum Reykjavíkur

Skipulagsmál

""

Skref í átt að stórauknu samráði við borgarbúa um skipulag, aukið gagnsæi og sjálfbærni í hverfum Reykjavíkur var stígið í umhverfis- og skipulagsráði í dag. Þar voru samþykktar skipulags- og matslýsingar fyrir gerð hverfisskipulags í átta af tíu borgarhlutum í Reykjavík en hverfisskipulagið er þáttur í innleiðingu aðalskipulags Reykjavíkur.

Hverfisskipulag fyrir hverfi borgarinnar felur í sér margþætt samspil umhverfis-, samfélags- og efnahagslegra þátta. Því er ætlað það metnaðarfulla hlutverk að leggja grunn að þróun hverfa borgarinnar til framtíðar með skipulagslausnum, framkvæmdum og öðrum aðgerðum á vistvænum forsendum.

Lýsingarnar sem voru samþykktar í dag eru hugsaðar sem grunnur að samtali við íbúa í hverfum borgarinnar. Settar eru fram hugmyndir um margvísleg svæði innan hvers hverfis sem hugsanlega mætti vernda, nýta betur, endurgera eða þróa í samvinnu og í fullu samráði við hverfisbúa. Í þeim er ekki að finna bindandi tillögur um uppbyggingu heldur er þeim eingöngu ætlað að veita borgaryfirvöldum, almenningi og öðrum sem koma að skipulagsgerðinni betri heildarsýn yfir þá möguleika sem eru til staðar í vinnunni sem framundan er.

Umfangsmikil vinna að baki

Undirbúningur lýsinganna hefur staðið yfir í hálft annað ár og að vinnunni hafa komið 24 af fremstu ráðgjafastofum arkitekta, landslagsarkitekta og skipulagsfræðinga hér á landi. Vinnu- og samráðsfundnir með íbúum voru haldnir í öllum hverfum undir yfirskriftinni „Gerðu hverfinu þínu gott“ þar sem fundargestir settu fram hugmyndir sínar.

Markmiðið er að vinna heildarskipulag fyrir öll hverfi borgarinnar með það að leiðarljósi að sameina gildandi deiliskipulagsáætlanir og skilmála fyrir viðkomandi hverfi í eina skipulagsáætlun. Settar verða fram almennar byggingar- og skipulagsheimildir sem einfalda skipulagsyfirvöldum fram- og eftirfylgd skipulagsáætlana fyrir hverfi borgarinnar.

Einfaldara og fljótlegra að sækja um breytingar

Íbúum borgarinnar verður þannig gert einfaldara fyrir að sækja um breytingar á eigin húsnæði innan ramma viðkomandi hverfis án þess að þurfa að fara í kostnaðarsamar og tímafrekar breytingar á skipulagi. 

Skipulags- og matslýsingar fyrir gerð hverfisskipulags hverfanna var samþykkt með sex atkvæðum Besta flokksins, Samfylkingarinnar og fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar Græns framboðs en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn tillögunni.

Tengill:

Hverfisskipulag.is.

Fundargerð og bókanir.