Reykjavík birtir opin fjárhagsgögn

Fjármál Stjórnsýsla

""

Reykjavíkurborg birti í dag fjárhagssupplýsingar úr bókhaldi A-hluta Reykjavíkurborgar í opnu og ósíuðu gagnaformi á vefnum opingogn.is. Þetta er í samræmi við samþykkta upplýsingastefnu borgarinnar sem tilgreinir að sem flest gögn borgarinnar skuli vera opin og gagnsæ.

Vefsvæðið opingogn.is er vistað á vefnum island.is. Þar er nú hægt að finna hrágögn úr uppgjöri Reyjavíkurborgar fyrir árin 2014, 2015 og 2016.

Reykjavíkurborg er fyrsta sveitarfélagið og reyndar fyrsti opinberi aðilinn sem birtir fjárhagsgögn sín með þessum hætti á vefnum.

Í desember í fyrra opnaði Reykjavíkurborg vefinn Opin fjármál en þar er hægt að kynna sér fjármál Reykjavíkurborgar ofan í kjölinn. Á vefnum eru gögn fyrir A-hluta borgarinnar sem samanstendur af Aðalsjóði, Eignasjóði og Bílastæðasjóði. Hægt er að rekja bókhald Reykjavíkuborgar niður á fagsvið og einstakar rekstrareiningar og skoða hversu mikil viðskipti þau eiga við einstaka birgja. Þess er þó gætt að ekki séu persónugreinanleg gögn í þessum upplýsingum.

Að sögn Halldóru Káradóttur skrifstofustjóra hjá fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar var vinnan sem unnin var fyrir vefinn Opin fjármál á reykjavik.is nauðsynlegur undirbúningur fyrir það skref sem nú hefur verið tekið þar sem bókhaldsgögn A-hluta Reykjavíkurborgar eru nú aðgengileg sem tölvulesanleg hrágögn á opingogn.is.

Áhugasamir geta nú tekið gögnin af vefnum, fært þau inn í excel, raðað þeim upp og borið saman rekstrareiningar að vild eftir árum. Hægt er að skoða þróun fjármála hjá einstökum rekstrareiningum borgarinnar, bera saman útgjöld á milli ára, eða skoða útgjaldaþróun eftir birgjum svo eitthvað sé nefnt.

„Þetta er stórt skref í innleiðingu upplýsingastefnu borgarinnar. Opin gögn þýða að hver sem er getur tekið gögnin og unnið úr þeim og sett fram á nýstárlegan hátt. Gögnin eru ósíuð nema að því marki sem persónuverndarlög krefjast. Borgin er síðan með sína eigin myndrænu framsetningu á gögnunum á vef sínum fyrir fólk að skoða. Þessar tæknilausnir sem Reykjavíkurborg hefur fjárfest í er hæglega hægt að þróa áfram til að birta enn ítarlegri bókhaldsgögn og alls kyns önnur gögn um starfsemi borgarinnar,“ segir Halldór Auðar Svansson formaður stjórnkerfis- og lýðræðisráðs.

Í sjötta kafla upplýsingastefnu Reykjavíkurborgar 2015 – 2020 sem samþykkt var af stjórnkerfis- og lýræðisráði í júlí 2015 er fjallað um opin gögn. Þar segir orðrétt:

„Upplýsingar, þ.m.t. fjárhagsupplýsingar, séu aðgengilegar á opnum gagnasniðum á tölvutæku formi eftir því sem við verður komið. Miðlægur listi yfir öll slík gagnasöfn sé einnig aðgengilegur.

Opin gagnasöfn skulu vera á stöðluðu og viðurkenndu formi svo þau nýtist sem flestum við að skapa ný verðmæti úr upplýsingum með því að nýta þau á margvíslegan hátt.

Opin gögn séu ósíuð, nema að því marki sem nauðsynlegt er til að þau séu í samræmi við kröfur laga, til að mynda persónuverndarlög.

Aðgangur að opnum gögnum sé almennt gjaldfrjáls. Kostnaður sé bundinn við það sem til fellur við að taka saman gögnin.

Endurútgáfa og dreifing opinna gagna sé frjáls.“

Reykjavíkurborg hefur því stigið stórt skref að auknu gagnsæi og auðveldað aðgengi að fjárhagsupplýsingum með birtingunni.

Þess má geta að Reykjavíkurborg er með tíu gagnapakka inn á vefsvæðinu

opingogn.is