Nýtt deiliskipulag fyrir Austurhöfn

Skipulagsmál

""

Geirsgata verður falleg borgargata í stað þess að vera hraðbraut og fyrirhuguð byggð í Austurhöfn verður lægri en fyrri áform gerðu ráð fyrir. Þannig er komið í veg fyrir að byggingarnar skyggi sem minnst á sjónlínur að Hörpu.

Þetta kemur fram í skilmálum nýs deiliskipulags fyrir reitinn sem borgarráð samþykkti að færi í auglýsingu á fundi sínum í gær, 19. desember

 

Samkvæmt nýju deiliskipulagi verður legu Geirsgötu breytt þannig að hún komi hornrétt á Kalkofnsveg og Lækjargötu. Nýtt aðalskipulag Reykjavíkur gerir einnig ráð fyrir þessu.

Götunni verður svo breytt þannig að hún verði falleg borgargata, en slíkar götur eru skilgreindar sem lykilgötur hverfa – mikilvægar samgöngutengingar við borgarhluta fyrir alla helstu ferðamáta. Borgargötur hafa sögulegt mikilvægi, sterka ímynd eða eru mikilvægir sjónásar í borgarlandslaginu.

Geirsgata mun halda tveimur akreinum í hvora átt og gatnamótin verða með tveimur beygjuakreinum í vesturátt svo að flæði umferðar í gegnum gatnamótin verði með besta móti. Við þessar breytingar mun reitur 2 minnka en reitur 6 stækkar á móti. (sjá uppdrátt)

Nokkur af húsunum á reitnum lækka frá fyrra deiliskipulagi svo að tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa njóti sín. Samkvæmt nýja deiliskipulaginu verða nýbyggingar á reitnum í meira samræmi við þá byggð sem fyrir er í miðborginni.

„Húsin eru lækkuð og þess gætt að þau skyggi ekki á Hörpu og umhverfið en það er mjög jákvæð breyting frá fyrra deiliskipulagi,“ segir Hjálmar Sveinsson, varaformaður umhverfis- og skipulagsráðs. „Mestu breytingarnar eru samt þær að gatnamót Geirsgötu, Kalkofnsvegar og Lækjargötu verða hefðbundin T-gatnamót. Við þessa breytingu losnum við hraðbrautarbeygjuna sem þarna er núna og hægjum svolítið á umferðinni. Þetta er engin ný dilla því í hugmyndasamkeppni sem haldin var um þetta svæði fyrir nokkrum árum, áður en rammaskipulag var kynnt,  gerðu allmargar tillögur ráð fyrir þessu. Menn hafa því lengi verið með þessa hugmynd. Breytingin er mjög til batnaðar og við fáum þarna gatnakerfi sem er á forsendum borgarlífsins en ekki eingöngu bílsins,“ segir Hjálmar.

Breytingarnar á Geirsgötu hafa þegar verið samþykktar í aðalskipulagi Reykjavíkur. Til stendur að hraða uppbyggingu á reitnum og gætu framkvæmdir hugsanlega hafist þar strax á næsta ári.

Frestur til að senda inn athugasemdir við deiliskipulagið er til 3. febrúar 2014.