Metár framundan í uppbyggingu íbúða

Samgöngur Umhverfi

""

Metár eru framundan í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Reykjavík sem bæta úr brýnni þörf á húsnæðismarkaði.  Áætlað er að á höfuðborgarsvæðinu vanti um 5.100 íbúðir til að mæta þörf og þar af eru  um 3.300 í Reykjavík. Þetta kom fram á vel sóttum uppbyggingarfundi í Ráðhúsinu nú í morgun.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kynnti  áherslur borgarinnar og húsnæðisstefnu. Tryggja á þarfir allra borgarbúa. Í húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar segir að meginmarkmið sé að til verði fjölbreyttur og sveigjanlegur húsnæðismarkaður sem tryggir öllum þak yfir höfuðið á viðráðanlegu verði, hvort sem fólk þarfnast stuðnings með sín húsnæðismál eða ekki.

„Uppbyggingin sem er framundan endurspeglar þörfina að miklu leyti en það þarf einfaldlega að byggja meira“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. „Nú þegar eru 5.500 íbúðir í samþykktu deiliskipulagi, af þeim eru um 2.000 í uppbyggingu. Um 4.000 íbúðir eru í deiliskipulagsferli og um 8.000 í þróun þannig að við sjáum fram á að geta annað þeirri eftirspurn innan fárra ára – enda sýna kannanir það að flestir vilja búa í Reykjavík“ segir Dagur að lokum. 

Á  málþinginu sem stendur yfir til hádegis kynna uppbyggingaraðilar og samtök áform sín í borginni en þar á meðal eru stúdentaíbúðir við báða háskólana, leiguíbúðir á vegum ASÍ og BSRB, endurgerð hverfa svo sem Vogabyggðar og Ártúnshöfða þar sem mikill fjöldi íbúða verður,  ásamt fjölbreyttri uppbyggingu víða í borginni.

Málþingið stendur yfir til hádegis í dag en á morgun laugardag fara fram vinnustofur sem Reykjavíkurborg og ASÍ standa að þar sem uppbygging leiguhúsnæðis verður til umræðu.

Nánari upplýsingar