Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Penninn Eymundsson taka höndum saman í Hörpu og bjóða gestum hússins að hlýða á átta rithöfunda spjalla um verk sín við sjónvarpsmanninn Egil Helgason. Dagskráin verður sunnudaginn 6. mars í fyrirlestrarsalnum Vísu á 1. hæð.
Matarhátíð Búrsins sem haldin verður í Hörpu um næstu helgi verður krydduð með nýútkomnum bókum. Þetta verður létt og skemmtilegt spjall og upplestur. Gott tækifæri til að sjá hvað er í boði í bókaútgáfu fyrstu mánuði ársins, hitta ný skáld sem eru að stíga fram á ritvöllinn og hlýða á fjölbreyttan upplestur.
Bókmenntaborgin og Penninn Eymundsson riðu á vaðið í fyrra á stóra matarmarkaði Búrsins og buðu gestum upp á upplestur í Hörpu í bland við matarupplifun. Mikil ánægja var með viðburðinn og því var ákveðið að endurtaka leikinn í ár. Við kynnum höfunda úr ólíkum áttum og vörpum ljósi á þá miklu breidd sem sjá má í íslensku bókmenntalífi. Grasrótin les úr verkum sínum ásamt reyndari skáldum.
Höfundarnir sem koma fram á sunnudaginn eru Jónína Leósdóttir sem á fyrstu bók ársins, spennusöguna Konan í blokkinni, Guðmundur Andri Thorsson sem fjallar um nýútkomna bók í ritröðinni Íslensk klassík, verkið Örlagaþættir eftir Sverri Kristjánsson og les Guðmundur brot úr verkinu. Ungskáldið Eydís Blöndal ræðir um sína fyrstu ljóðabók Tíst og bast og les úr bókinni. Dagur Hjartarson les úr nýútkominni skáldsögu sinni Síðasta ástarjátningin sem kom í verslanir í vikunni. Ragnar Helgi Ólafsson og Dagur ræða um forlagið Tunglið og nýjustu útgáfur þess. Ragnar Helgi les einnig upp úr nýjum verkum, en hann hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2015 fyrir ljóðabók sína Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum. Ný skáld Tunglsins, þau Sólveig Johnsen, Þórdís Helgadóttir og Björn Halldórsson verða kynnt og lesa þau úr smásögum sínum sem birtust í Skíðblaðni, tímariti Tunglsins forlags.
Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa mun iða af lífi alla helgina. Íslenskur sjávarútvegur og landbúnaður kynna sig, bæði innan dyra í Hörpu og fyrir utan húsið. Matarmarkaður Búrsins, beint frá býli, verður í Flóa alla helgina. Matarveislan mikla, Food and Fun, verður í brennidepli þegar matreiðslumaður hátíðarinnar verður krýndur á laugardaginn og Bókmenntaborgin og Penninn Eymundsson munu krydda dagskrána á sunnudag með upplestri og höfundaspjalli í fyrirlestrarsalnum Vísu á 1. hæð.
Bókmenntadagskráin verður í Vísu – fyrirlestrasal á 1. hæð og tekur Egill Helgason vel á móti skáldum og gestum Hörpu.
Kl. 14:00 Dagur Hjartarson og Ragnar Helgi Ólafsson
Kl. 14.30 Sólveig Johnsen, Þórdís Helgadóttir og Björn Halldórsson
Kl. 15.00 Jónína Leósdóttir
Kl. 15.20 Guðmundur Andri Thorsson
Kl. 15.40 Eydís Blöndal.
Kl. 14.30 Sólveig Johnsen, Þórdís Helgadóttir og Björn Halldórsson
Kl. 15.00 Jónína Leósdóttir
Kl. 15.20 Guðmundur Andri Thorsson
Kl. 15.40 Eydís Blöndal.
Dagskránni lýkur kl. 16.00