María Rut verkefnastjóri Tónlistarborgarinnar Reykjavíkur

Menning og listir

""

María Rut Reynisdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri Tónlistarborgarinnar Reykjavíkur úr hópi 35 umsækjenda.

María Rut hefur undanfarin ár verið umboðsmaður tónlistarfólks, þar á meðal Ásgeirs Trausta, og sinnt umfangsmiklum verkefnum í því starfi hér heima og erlendis. Hún var í nokkur ár framkvæmdastjóri Íslensku tónlistarverðlaunanna og tók á sínum tíma þátt í því að byggja upp frumkvöðlafyrirtækið og tónlistarveituna Gogyoko.

Hún hefur verið dagskrárstjóri tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves, ráðstefnustjóri You Are In Control,  skipulagt stórtónleika Ljósanætur í Reykjanesbæ og kennt verkefnastjórnun hjá Listaháskóla Íslands. Í gegnum árin hefur hún auk þess skipulagt og stýrt ýmsum öðrum verkefnum og viðburðum.

María Rut lærði skapandi verkefna- og viðskiptastjórnun í  KaosPilot skólanum í Árósum og er auk þess með B.A. gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands. Nýlega lauk hún netnámskeiði Berklee tónlistarskólans í markaðssetningu tónlistar á netinu.

Tónlistarborgin Reykjavík er nýtt þróunarverkefni á vegum Reykjavíkurborgar og verður hlutverk Maríu Rutar meðal annars að móta og ýta úr vör aðgerðum í samræmi við tillögur starfshóps um Tónlistarborgina Reykjavík og  skapa hagstæð skilyrði fyrir gróskumikla tónlistarstarfsemi um alla borg.

Verkefnið Tónlistarborgin Reykjavík heyrir undir Menningar- og ferðamálasvið Reykjavíkur en starfsstöðin verður við Hlemm, í sama húsnæði og Útón, útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar.