Lokun á Laugavegi við Kringlumýrarbraut framlengd um sólarhring

Framkvæmdir Samgöngur

""

Framkvæmdir um helgina við lagningu á nýrri vatnslögn þvert undir Laugaveg við Kringlumýrarbraut voru umfangsmeiri en hægt var að sjá fyrir. Því verður að framlengja tímabundna lokun á umferð um Laugaveg við gatnamótin um einn sólarhring. Opnað verður fyrir umferð um Laugaveg að nýju á þriðjudag kl. 7.

Kringlumýrarbraut verður opin, en ekki verður hægt að beygja inn á Laugaveg. Bílaumferð niður Suðurlandsbraut þarf einnig að fara um hjáleiðir. Strætó mun nota hjáleið um Borgartún og Nóatún og hafa upplýsingar verið settar upp á þeim biðstöðvum sem falla tímabundið úr þjónustu. Gangandi og hjólandi komast stíginn meðfram Laugavegi.

Ástæður fyrir seinkun framkvæmda um helgina eru að mikil mold og stórgrýti reyndist vera í undirfyllingu götunnar en það kallar á meiri jarðvegsskipti. Beðist er velvirðingar á mögulegum töfum í umferðinni. Vegfarendur eru hvattir til að sýna aðgát við framkvæmdasvæðið og á hjáleiðum. 

Nýr hjólastígur nýtur góðs af vatnslögninni

Framkvæmdin í heild er endurnýjun 600 mm vatnslagnar meðfram Kringlumýrarbraut frá dæluhúsi neðan við Laugaveg upp að Miklubraut.  Vatnslögnin verður lögð meðfram núverandi gönguleið vestan Kringlumýrarbrautar. Á síðari stigum verksins verður svo lagður nýr hjólastígur og nýtast jarðvegsframkvæmdirnar þannig bæði vatnslögninni og hjólastígnum. Verkefnið er unnið í samstarfi Reykjavíkurborgar, Orkuveitunnar, Mílu og Vegagerðarinnar.