Litríkar sumargötur

Umhverfi Mannlíf

""

„Við viljum fá borgarbúa í lið með okkur að velja litina sem eiga að ríkja á sumargötunum,“ segir Hildur Gunnlaugsdóttir, arkitekt og umhverfisfræðingur, en hún leiðir verkefnið „Sumar götur eru sumargötur“.

Allir velunnarar litríkra gatna eru beðnir um að velja á milli þriggja litasamsetninga:

  • PollaPönk - burtu með fordóma!
  • MelónuÆði - safaríkir litir.
  • StrandarSnilld - sandur milli tánna?

Litirnir verða notaðir til að lífga upp á umhverfið og er verkefnið hluti af eðlilegu viðhaldi, en mála þarf borgarbekki, nestisborð og hjólahlið. 

                      – Velja liti 

 

Sumargötur á þjóðhátíðardaginn

Frá og með 17. júní verða Laugavegur fyrir neðan Vatnsstíg og Skólavörðustígur neðan Bergstaðastrætis sumargötur fyrir gangandi vegfarendur. Bílum er beint um greiðar hjáleiðir og opið er fyrir akstur um þvergötur, auk þess sem bílastæði fyrir hreyfihamlaða verður við göngugötu. Gert er ráð fyrir akstri með aðföng kl. 8 – 12 virka daga, en almennar bifreiðastöður í götunni eru óheimilar.

Pósthússtræti nú um helgina

Pósthússtræti frá Kirkjustræti tekur forskot á sæluna og verður sumargata strax um helgina, frá laugardegi 7. júní, með sama fyrirkomulagi og hinar sumargöturnar.

Sumargöturnar fá að njóta mannlífsins í allt sumar eða fram til mánudagsins 1. september. Í samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs er gert ráð fyrir þeim möguleika að framlengja tímann ef hagsmunaaðilar óska eftir því tímanlega.