Íslenskuverðlaun unga fólksins afhent í 10. sinn

Skóli og frístund

""

Hátt í sextíu grunnskólanemendur tóku við Íslenskuverðlaunum unga fólksins í bókmenntaborginni Reykjavík í dag. Verndari verðlaunanna, frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti, afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn í Norðurljósasal  Hörpu. 

Meðal verðlaunahafa voru lestrarhestar, ljóðskáld, ræðusnillingar og nemendur sem sýnt hafa miklar framfarir í íslenskunámi, en allir grunnskólar í borginni tilnefna nemendur eða nemendahópa á hverju skólastigi.



Við athöfnina flutti frú Vigdís Finnbogadóttir ávarp og nemendur úr Ingunnarskóla og Hamraskóla sungu. 



Íslenskuverðlaunin voru að þessu sinni í formi verðlaunaskjals og bókagjafar. Þá verður verðlaunahöfum einnig boðið til móttöku í Gunnarshúsi, aðsetri Rithöfundasambands Íslands, til fundar við höfunda barna- og unglingabóka.



Íslenskuverðlaununum er ætlað að auka áhuga grunnskólanema í Reykjavík á íslenskri tungu og hvetja þá til framfara í tjáningu í töluðu og rituðu máli. Alls hafa um 600 reykvísk börn fengið þessi verðlaun frá upphafi. 



Yfirlit yfir handhafa íslenskuverðlaunanna 2016.