Íslenska gámafélagið flytur á Esjumela

Skipulagsmál Framkvæmdir

""
Íslenska gámafélagið flytur starfsemi sína úr Gufunesi á nýtt athafnasvæði á Esjumelum og  RVK-Studios mun byggja upp kvikmyndaver í byggingum gömlu Áburðarverksmiðjunnar. 
Borgarráð samþykkti samhljóða á fundi sínum í gær að ganga til samninga við RVK- Studios um kaup á Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi en fyrirtækið hyggst koma á fót kvikmyndaveri í húsnæðinu. 
 
Byggingarnar tilheyrðu áður Áburðarverksmiðjunni en hafa verið leigðar Íslenska gámafélaginu undanfarin ár. Í dag var síðan undirritaður samningur um að Íslenska gámafélagið flytji úr húsnæðinu á Gufunesi fyrr en áætlað var en leigusamningur félagins um afnot af byggingum Áburðarverksmiðjunnar gilti til ársloka 2018. Greiðir Reykjavíkurborg Íslenska gámafélaginu 150 mkr  vegna kostnaðar sem metinn hefur verið vegna afnotamissis og tapaðra leigutekja en einnig fyrir það að félagið hefur þurft að endurnýja holræsalagnir og götur í Gufunesi. Íslenska gámafélagið mun flytja starfsemi sína á nýtt atvinnu- og iðnaðarsvæði Reykjavíkurborgar á Esjumelum en þar mun fyrirtækið byggja upp til framtíðar. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Jón Þórir Frantzson, stjórnarformaður Íslenska gámafélagsins, tóku skóflustungu að nýjum byggingum félagsins á Esjumelum auk þess að undirrita samningana.
 
Stýrihópur um framtíðarmöguleika í Gufunesi fjallaði um erindi RVK-Studios og gerði tillögu til borgarráðs, sem það samþykkti, um að uppbygging kvikmyndavers í Gufunesi yrði ein af forsendum skipulagssamkeppni um svæðið, sem nú er að hefjast.
 
Í framhaldi af því hóf skrifstofa eigna og atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg samningaviðræður við RVK-Studios um kaup á eignum og afnot lóðar. Tveir óvilhallir matsmenn voru fengnir til að meta verðmæti eignanna og var samið um kaupverð á grundvelli matsgerða þeirra. Jafnframt hefur RVK-studios fengið vilyrði fyrir væntanlegum lóðum austan bygginganna til að félagið geti þróað enn frekar starfsemi á sviði kvikmyndagerðar á svæðinu. Greiðir RVK-Studios borginni um 302 milljónir fyrir eignirnar.
 
Reykjavíkurborg og RVK-studios gera jafnframt með sér samstarfsamning um markaðssetningu svæðisins í heild.