Íbúar kjósa um framkvæmdir í hverfum borgarinnar

Betri hverfi Fjármál

""

Í dag opnaði kosningavefur fyrir framkvæmdir í hverfum borgarinnar og er það í fimmta sinn sem íbúar í Reykjavík geta tekið þátt í ákvörðunum með beinum hætti. Framkvæmdafé er 450 milljónir króna eða 50% hærra en í fyrri kosningum.

Kosningavefurinn hefur verið endurbættur frá því síðast og var hann prufukeyrður af notendahópi í liðinni viku. Mikil ánægja var með breytingar sem gerðar voru, en nú geta íbúar í Reykjavík dæmt sjálfir. Kosið er á vefslóðinni kosning.reykjavik.is og standa kosningar í tvær vikur eða til og með 17. nóvember.

Íbúar velja fyrst borgarhluta og kjósa síðan milli 20 verkefna upp að þeirri upphæð sem til ráðstöfunar er. Ekki er nauðsynlegt að velja fyrir alla upphæðina sem hverfið hefur til ráðstöfunar. 

Rétt til þátttöku í kosningunum hafa íbúar fæddir árið 2000 eða fyrr og sem eru búsettir í Reykjavík á þeim degi sem kosið er.  Ekki er skylda að kjósa í þeim borgarhluta sem viðkomandi býr, en eingöngu er hægt að kjósa í einu hverfi.  Notendur auðkenna sig til að staðfesta kosningu og stendur þar valið á milli rafrænna auðkenna og Íslykils.

Hugmyndum íbúa komið í framkvæmd

Kosningarnar sem nú standa yfir eru síðasta stigið af fjórum í samráðsferli íbúa, hverfisráða og Reykjavíkurborgar og eru niðurstöðurnar bindandi. Verkefni sem íbúar kjósa verða framkvæmd frá apríl til september 2017.

Hugmyndum var safnað hjá íbúum í júní og bárust rúmlega 900 hugmyndir sem var 50% aukning frá fyrra ári. Tíminn frá hugmyndaskilum hefur síðan verið nýttur til að vinna úr innsendum hugmyndum. Svipaðar hugmyndir hafa verið sameinaðar og búið er að áætla framkvæmdakostnað við hverja þeirra. Tuttugu hugmyndum var stillt upp í hverju hverfi af fagteymi hjá umhverfis- og skipulagsráði og þær lagðar fyrir hverfisráð til skoðunar.

Nánari upplýsingar: