Húsfyllir á íbúafundi um Grensásveg og Háaleitisbraut

Umhverfi Skipulagsmál

""

Húsfyllir var á íbúafundi um Grensásveg og Háaleitisbraut sem haldinn var í Breiðagerðisskóla 12. mars sl.  Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar stóð fyrir fundinum.  Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, opnaði fundinn og setti fundarefnið í samhengi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 um endurhönnun götunnar sem mikilvægs og fjölbreytilegs almenningsrýmis í borgarlandslaginu.

Stefán Agnar Finnsson, umferðarverkfræðingur Reykjavíkurborgar, kynnti væntanlegar breytingar á Grensásvegi og Háaleitisbraut fyrir fundargestum og var þeim vel tekið þótt skiptar skoðanir væru um nokkur atriði og einhverjir alfarið á móti.

Formenn íbúasamtaka og hverfisráð voru sammála um að breytingarnar væru æskilegar. Yfir 150 manns sóttu fundinn og voru fundargestir ánægðir að geta skipst á skoðunum.

Eftirfarandi breytingar eru fyrirhugaðar á Grensásvegi en á Háaleitisbraut stendur til að halda áfram lagningu hjólastíga. 

  • Grensásvegur sunnan Miklubrautar, þ.e. á milli Bústaðavegar og Miklubrautar, er fjórar akreinar fyrir bíla, þ.e. tvær akreinar í hvora átt.  Umhverfis- og skipulagsráð hefur samþykkt að þeim verði fækkað í eina akrein í hvora átt.
  • Í stað akreina sem hverfa verður gerður 2,5 m breiður hjólastígur beggja vegna til hliðar við gangstétt sem verður að minnsta kosti 2ja metra breið. Hvor akrein fyrir bíla verður 4,5 m breið og hjóla- og göngustígur a.m.k. 4,5 m breiður samtals. Smá hæðarmunur verður á milli hjóla- og göngustígs.
  • Umferðarljós sem eru á gatnamótum við Hæðargarð verða þar áfram og einnig gangbrautarljós sem eru við Breiðagerði en stjórnbúnaður þeirra verður endurnýjaður.
  • Ný gangbrautarljós verða sett norðan við Heiðargerði í stað hraðahindrunar á gönguþverun sem áður var áætluð.
  • Biðstöðvar strætó eru á þremur stöðum, þ.e. þrjár hvoru megin götunnar. Gert er ráð fyrir að biðstöð strætó rjúfi hjólastíginn þannig að strætó leggi að gangstétt. Þetta er gert með tilliti til aksturs neyðarbíla en hætta er talinn á of mikilli töf þeirra ef vagn stoppar í götunni. Það fyrirkomulag má endurskoða þegar bráðamóttaka flyst frá Borgarspítala í Landspítala við Hringbraut.
  • Sex til sjö sentimetra hæðarmunur verður á milli götu og hjólastígs þannig að almenn umferð geti auðveldlega vikið upp á hjólastíginn ef neyðarbíll er á ferð.
  • Gangstéttar sem eru ónýtar verða endurnýjaðar.
  • Götulýsing verður endurnýjuð. Núverandi staurar í gangstétt verða fjarlægðir og nýjum staurum komið fyrir í miðeyjunni.
  • Framhjáakstur á umferðarljósum við gatnamót Grensásvegar og Bústaðavegar verður aflagður.
  • Gróður verður í miðeyjunni. Gætt verður að því að hann byrgi ekki sýn fyrir akandi, hjólandi eða gangandi.

Hér að neðan er hægt að lesa fundargerð og skjal sem sýnir umferðarmælingar, teikningar af fyrirhuguðum breytingum og fleira. 

Fundargerð – Opinn íbúafundur um Grensásveg og Háaleitisbraut.

Grensásvegur - umferðarmælingar og fleira.