Höggmyndagarður til minningar um upphafskonur íslenskrar höggmyndalistar verður vígður við hátíðlega athöfn á suðvesturhorni Hljómskálagarðsins á kvenréttindadaginn fimmtudaginn 19. júní klukkan 19.30. Borgarstjóri Dagur B. Eggertsson vígir garðinn og opinberar nafn hans.
Í garðinum eru höggmyndir eftir sex konur sem voru frumkvöðlar í höggmyndalist hér á landi, þær Gunnfríði Jónsdóttur (1889 - 1968), Nínu Sæmundsson (1892 - 1962), Tove Ólafsson (1909 - 1992), Þorbjörgu Pálsdóttur (1919 - 2009), Ólöfu Pálsdóttur (1920) og Gerði Helgadóttur (1928 - 1975).
Að lokinni vígslu garðsins í Hljómskálagarðinum, eða um kl. 20.00 mun Auður Styrkársdóttir, forstöðukona Kvennasögusafnsins, leiða göngu um kvennasöguslóðir í Reykjavík í samstarfi við Borgarbókasafn og Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Fyrsti viðkomustaður verður Hólavallakirkjugarður þar sem Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar flytur stutt ávarp og leggur blómsveig á leiði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur.
Gangan heldur svo áfram um áhugaverða staði sem eru samofnir sögu kvenna í borginni.
Ekki missa af skemmtilegri dagskrá. Allir eru velkomnir.
Dagskrá:
Kl. 19.30 Meðlimir úr kvenblástursbandinu Icelandic Wonderbrass leika fyrir gesti.
Kl. 19.40 Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson heldur ræðu og vígir garðinn.
Kl. 19.50 Meðlimir úr kvenblástursbandinu Icelandic Wonderbrass leika fyrir gesti.
kl. 20.00 Kvöldganga á kvennasöguslóðir í kvosinni í fylgd Auðar Styrkársdóttur, forstöðukonu Kvennasögusafns Ísland, hefst. Gengið í Hólavallakirkjugarð að leiði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur.
kl. 20.10 Krans lagður að leiði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Ávarp Sóleyjar Tómasdóttur, forseta borgarstjórnar.
kl. 20.20 Kvöldgangan heldur áfram.