Harmonikuhátíð Reykjavíkur 2016 á Árbæjarsafni

Mannlíf

""
Sunnudaginn 17. Júlí verður hin árlega Harmonikuhátíð Reykjavíkur haldin venju samkvæmt í Árbæjarsafni og hefst dagskráin kl. 13.00. Þarna er einstakt tækifæri til að kynnast og njóta í návígi margra okkar bestu og þekktustu harmonikuleikara í mögnuðu umhverfi safnsins.
 
Þessi árlega harmonikuhátíð í Árbæjarsafni, hefur síðustu árin notið sívaxandi vinsælda og er nú orðin einn fjölsóttasti viðburður safnsins, enda ógleymanlegt tækifæri fyrir alla aldurshópa til að rifja upp sögu okkar við viðeigandi undirleik ljúfrar harmonikutónlistar á fallegum sumardegi í Minjasafni Reykjavíkurborgar.
 
Dagurinn er tileinkaður Karli Jónatanssyni harmonikuleikara og stofnanda Harmonikuhátíðar Reykjavíkur, en Karl féll frá á nítugasta og öðru aldursári í byrjun þessa árs. Hátíðin verður í ár, og héðan í frá, haldin í minningu Karls en eins og margir muna eflaust skemmti hann einmitt gestum Árbæjarsafns með fágaðri spilamennsku um árabil alla sunnudaga yfir sumartímann.