Gott jafnvægi við nærliggjandi byggð

Stjórnsýsla Umhverfi

""

Í dag voru kynntar niðurstöður dómnefndar í hugmyndasamkeppni um lóð RÚV við Efstaleiti og var tillaga Arkþings hlutskörpust. „Ný byggð er í góðu jafnvægi við kvarða nærliggjandi byggðar, t.d. húsa við Neðstaleiti og Stóragerði…“, segir meðal annars í dómnefndaráliti. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri kynntu niðurstöðurnar og opnuðu formlega sýningu sem verður í Ráðhúsi Reykjavíkur til 7. júlí. 

Þeir sem skipa vinningsteymi Arkþings eru Helgi Mar Hallgrímsson, arkitekt, Sigurður Hallgrímsson, arkitekt og Sigurjón Guttormsson, byggingarfræðingur.

Tillagan Arkþings gerir ráð fyrir að lóðinni sé skipt í tvo meginreiti.  Á öðrum reitnum er gert ráð fyrir að byggðin samanstandi að mestu af íbúðum og minni verslunar- og þjónustueiningum. Þar er unnið markvisst með stöllun húsa í hæð, formi og mótun lands svo úr verður ásýnd stakstæðra húsa með skemmtilegum þakgörðum og svölum.  Dómnefndin  telur vera mikilvægt er að þessi lykilhugmynd sé í forgrunni við útfærslu deiliskipulagstillögunnar.  Á hinum reitnum telur dómnefndin sannfærandi hvernig byggðin er brotin upp í aðgreindar byggingar með láreistum tengibyggingum á suðurhluta og stakstæða byggingar á norðurhluta.    „Höfundar virðast vinna með grunnform Ríkisútvarpshússins og opna á milli húsa fyrir sýn að Ríkisútvarpshúsinu sem tryggir því áframhaldandi sess í sínu umhverfi“, segir í álitinu.  Skoða niðurstöður dómnefndar.

Vistvæn og fjölbreytt hverfi með þéttingu byggðar

Borghildur Sölvey Sturludóttir arkitekt og verkefnisstjóri hjá skipulagsfulltrúa segir að RÚV reiturinn falli vel að stefnum og markmiðum í aðalskipulagi Reykjavíkur þar sem þétting og gæði byggðar eru höfð að leiðarljósi. Þéttari byggð dregur úr vegalengdum, samgöngukostnaði og umhverfisáhrifum samgangna og því er uppbygging á miðlægum svæðum í forgangi. Blönduð byggð á þessu svæði styrki vistvænar samgöngur í borginni með tengingu við göngu- og hjólastíga í Fossvogi. Þétting byggðar skapar lífvænleg og fjölbreytt hverfi. Aukið framboð íbúðarhúsnæðis er ákjósanlegt fyrir verslun og þjónustu og nýtir betur og styrkir fjárfestingar í götum, veitum og þjónustustofnunum.


Nýta sól og skjól

Í áliti dómnefndar kemur fram að verðlaunatillagan vinni heildstætt með lóðina, en taki jafnfram tillit til Útvarpshússins sem kennileitis. Tillögurnar fimm sem metnar voru eru að mati dómnefndar allar vel unnar og taka vel á þeim markmiðum sem fram koma í keppnislýsingu, en meginmarkmið hugmyndasamkeppninnar voru:

  • að horfa til skipulags svæðisins með tilliti til fyrirkomulags og þéttleika hinnar nýju byggðar; 
  • að fá fram yfirbragð góðrar byggingarlistar og tillögur sem taka mið af meginmarkmiðum og framtíðarsýn Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 um þéttingu byggðar, græna borg og borg fyrir fólkið;
  • að koma með framsæknar skipulagshugmyndir um nýja blandaða byggð, spennandi almenningsrými og fyrirkomulag vistvænna samgöngumáta;
  • að skapa tækifæri til að blanda saman fjölbreyttum íbúðastærðum á ákveðnum reitum;
  • að huga að nánasta umhverfi svæðisins og góðum tengingum við það.  Hæðir húsa skulu taka mið af aðliggjandi byggð sem er allt að sex hæðir að vestanverðu og 2-3 hæðir að austanverðu;
  • að nýta sól og skjól til að skapa vönduð og mannvæn einka- og almenningsrými utandyra, á milli bygginga og í göturýmum;
  • að leggja áherslu á skjólgóð og vistleg dvalar- og leiksvæði með gróðursetningu og útfærslu byggðamynsturs;
  • að skapa almenningsrými, svo sem torg eða garða, sem nýtast íbúum og gestum og stuðla að góðu samspili almenningsrýma, bygginga og nærumhverfis;
  • að leggja áherslu á umhverfisleg og samfélagsleg gæði hins manngerða umhverfis;
  • að leita sjálfbærra lausna við skipulag og hönnun svæðisins;
  • að bera virðingu fyrir staðaranda og skapa byggð sem hefur reykvískt yfirbragð;
  • að öllum samgöngumátum verði gert jafnhátt undir höfði.

 

Skoða niðurstöður dómnefndar.