Gefur mikið að hjóla

Umhverfi Samgöngur

""

Í morgun fór hjólateljarinn á stígnum við Suðurlandsbraut yfir 100.000 frá áramótum og er það táknrænt fyrir þá aukningu sem hefur orðið á hjólreiðum allt árið.   Bragi Freyr Gunnarsson,  hjólreiðamaðurinn sem fór yfir markið á þessum tímamótum, var að vonum glaður þegar hann var stöðvaður.  Hann hjólar allt árið og á því ófá tikkin á teljaranum.  „Ég hafði séð útundan mér í síðustu viku að þetta var að nálgast markið, en átti ekki von þessu,“ sagði Bragi sem fær gjafabréf frá Reykjavíkurborg í tilefni dagsins.

Bragi Freyr býr í Seljahverfi í Breiðholti og hjólar til vinnu sinnar hjá Reiknistofu bankanna sem staðsett er í Borgartúni. Hann leggur því að baki 16 km á dag til og frá vinnu. Oftast hjólar hann meira því að í ágúst ákvað fjölskyldan að losa sig við bílinn og tileinka sér bíllausan lífsstíl.  Kona Braga, Eygló Tómasdóttir, vinnur í hverfinu.  „Eftir að við fluttum í Seljahverfið og Eygló fékk vinnu þar, þá stóð bíllinn bara í stæði. Hverfið er frábært og auðvelt að komast um á hjóli og gangandi,“ segir Bragi.

Hreyfingin kemur af sjálfu sér

„Það hefur gefið okkur meira en við áttum von á að losa okkur við bílinn, en við ákváðum að prófa þetta í eitt ár,“ segir Bragi. „Maður hreyfir sig miklu meira þegar maður er bíllaus. Hreyfingin kemur af sjálfu sér og peningarnir fara í bankann því bíllinn gleypir þá ekki.“ Eygló og Bragi eiga þrjár dætur, þriggja, fjögurra og átta ára. Bragi segir að frítíminn fái annan blæ að fara á hjóli og það veki athygli. „Manni er hrósað alveg stanslaust,“ segir hann.

Aukin tillitssemi er mesta breytingin

„Mér finnst mesta breytingin vera aukin tillitssemi,“ segir Bragi um breytingar sem hafa orðið með auknum hjólreiðum.  „Með breyttu skipulagi og betri aðstæðum fyrir hjólafólk hefur fjöldi þeirra sem hjóla aukist.  Með auknum fjölda eykst tillitssemi annarra vegfarenda,“ segir  Bragi sem hefur hjólað reglulega í nokkur ár og af auknum krafti frá 2009. 

„Það má einnig koma fram að það er ómetanlegt að vinna hjá fyrirtæki sem styður við slíkan lífsstíl.  Stemningin meðal stjórnenda hjá RB er mjög jákvæð og yfir  40% starfsmanna eru á samgöngusamningi . Aðstaðan er góð, búningsherbergi, sturtuklefi og hjólageymsla,“ segir hann.

Björg Helgadóttir sem hefur umsjón með talningum á umferð í Reykjavík segir að hjólreiðamenn hafi verið taldir reglulega frá árinu 2009 á völdum leiðum í borginni til að fá mynd af þróun hjólreiða.  Niðurstöður talninga sýna gríðarlega aukningu eða nálægt fjórföldun frá því talningar hófust og er þó þetta ár ekki allt komið. Teljarinn við Suðurlandsbrautina er eini rafræni teljarinn, en aðrar leiðir eru taldar af starfsmönnum á völdum tímum.

Og svo er keppni á laugardag

Bragi er í hjólreiðafélaginu Tindi, sem m.a. hefur skipulegt keppnir og vill hann gjarnan vekja athygli á því að nú á laugardag verði keppni haldin í Mosfellsdal og verðum við að sjálfsögðu við því. Skráning og kort af keppnisleið á www.hjolamot.is.

Bragi hjólar á Specialized CruX cyclocross hjóli sem hann segir að henti vel fyrir íslenskar aðstæður. „Ég nota það í allt. Þetta er mitt samgönguhjól og keppnishjól,“  segir hann ánægður með gripinn.